137. löggjafarþing — 10. fundur,  28. maí 2009.

olíugjald og kílómetragjald o.fl.

56. mál
[20:52]
Horfa

Þór Saari (Bhr):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra, ég vona að ráðherrann hafi heyrt það sem kollegi minn, Tryggvi Þór Herbertsson, hafði fram að færa. Verðtryggðar íbúðarskuldir heimilanna eru um 1.500 milljarðar þannig að hækkunin sem lendir á skuldabyrði heimilanna mun verða um 8 milljarðar.

Alþýðusamband Íslands er alfarið á móti þessu, Samtök atvinnulífsins eru alfarið á móti þessu. Það fellur aukinn kostnaður á ríkissjóð vegna þessara mála, t.d. vegna hækkunar vaxtabóta. Sá kostnaður er ekki reiknaður inn í forsendur frumvarpsins. Það fellur aukinn kostnaður á ríkissjóð vegna verðtryggðra bóta ríkissjóðs. Sá kostnaður er ekki reiknaður inn í forsendur þessa frumvarps. Eins og við heyrðum áðan falla um 5 milljarðar í aukinn kostnað hjá ríkissjóði vegna hækkunar á persónufrádrætti. Sá kostnaður er ekki reiknaður inn í forsendur þessa frumvarps. Að auki hækka verðtryggðar skuldir ríkissjóðs sjálfs.

Þar er kannski athyglisvert dæmið sem við fengum frá fjármálaráðuneytinu, að verðtryggðar skuldir ríkissjóðs eru upphaflega 270 milljarða kr. skuldabréf sem var gefið út til Seðlabanka Íslands til að bæta honum upp það tap sem hann varð fyrir þegar hann afhenti hér fjárglæframönnum 350 milljarða næstum því á einu bretti. Þær skuldir lentu á ríkissjóði og standa í 307 milljörðum í dag. Þessar skuldir munu hækka um 1,5 milljarða við þessa vísitölubreytingu þannig að það er orðið dagljóst að þessi aðgerð hæstv. fjármálaráðherra mun leiða til stórfelldrar aukningar á skuldum ríkissjóðs og hafa þveröfug áhrif.

Ég ætla ekki að skattyrðast um þetta lengur. Ég hvet hæstv. fjármálaráðherra einfaldlega til þess að draga þetta frumvarp til baka og fá það lagfært með einhverjum hætti (Gripið fram í.) þannig að breytingar er lúta að skattalöggjöfinni leiði ekki beinlínis — og ég segi beinlínis — til þess að skuldir ríkissjóðs hækki. Það sér það hver maður hér inni, virðulegi forseti og hæstv. fjármálaráðherra hljóta að sjá það líka, að þetta mál hefur ekki verið nægilega vel undirbúið og það er engin vansæmd að því að draga það baka vegna þess að málið er einfaldlega gallað í sinni upprunalegu útgáfu.

Ég hvet því þingheim — ef hæstv. fjármálaráðherra vill láta á það reyna að greiða um það atkvæði — til að taka ekki þátt í þeirri atkvæðagreiðslu. Lokaorð mín eru samt þau að málið verði dregið til baka.