137. löggjafarþing — 10. fundur,  28. maí 2009.

olíugjald og kílómetragjald o.fl.

56. mál
[20:55]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Þeir gestir sem komu til efnahags- og skattanefndar tóku í raun undir sjónarmið stjórnarandstöðunnar sem komu fram við 1. umr. um áhrif hækkunar á vísitölu neysluverðs. Ekki nóg með það heldur bentu þeir á það sem við ræddum við 1. umr., að víxlverkunin væri í raun enn meiri en við höfðum gert okkur grein fyrir.

Það kom fram í orðum hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar að við erum raunverulega að tala um aukinn taprekstur hjá ríkissjóði ef þetta frumvarp um hækkanir á þessum vörugjöldum verður samþykkt.

Það kom líka fram hjá gestum nefndarinnar — og þetta var einhvern tíma rætt m.a. hjá nefndarmönnum líka — að hugsanlega gæti þetta líka haft áhrif á samningaviðræður við aðila vinnumarkaðarins um stöðugleikasáttmála. Ég hlýt því að spyrja, frú forseti: Vann ríkisstjórnin ekki neitt á þeim 100 dögum sem hún sat hér við völd? Hafa tillögur um hvað ætti að gera í sambandi við fjárlagahallann hjá ríkissjóði ekkert verið undirbúnar? Hafa menn ekki skoðað hvaða áhrif tillögurnar hafa, bæði náttúrlega núna þar sem við erum að tala um aukin útgjöld fyrir heimilin og fyrirtækin og síðar líka þar sem mér skilst að væntanlegur sé einhvers konar bandormur eins og kom fram í orðum hæstv. fjármálaráðherra? Er þetta eitthvað sem verið er að kasta fram núna kannski af því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er búinn að vera í heimsókn hjá okkur og við þurfum að gera eitthvað einn, tveir og þrír? Þetta virkar svolítið þannig.

Ég hvet eindregið til þess, frú forseti, að ríkisstjórnin taki þetta mál til baka og leggist virkilega yfir það hvernig raunverulega er hægt að rétta af þann 170 milljarða króna halla sem við erum að fást við án þess að gera stöðu íslensks almennings enn verri.