137. löggjafarþing — 10. fundur,  28. maí 2009.

olíugjald og kílómetragjald o.fl.

56. mál
[21:01]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann Helga Hjörvar, vegna þess að honum er tíðrætt um það sem miður fór í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins, um 18 ára valdasetu Sjálfstæðisflokksins og það sem miður fór á þeim tíma: Hvers vegna í ósköpunum viðheldur hann þá þeim afglöpum sem hann talar um sjálfur með því að mæla með því frumvarpi sem hér er lagt fram þar sem í ljós kemur að frumvarp um þær hækkanir sem hér eru lagðar til auka skuldir ríkissjóðs?

Er það er að mati hv. þm. Helga Hjörvars réttlætanlegt, frú forseti, að endurtaka sömu vitleysuna aftur og aftur af því að Sjálfstæðisflokkurinn gerði það í 18 ára valdatíð sinni? Er það þá vonin sem við eigum í breyttum vinnubrögðum sem núverandi ríkisstjórn segist ætla að halda uppi, að viðhalda því sem hv. þm. Helgi Hjörvar hefur kallað afglöp í stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins? Hann ætlar að stuðla að því að sömu vinnubrögð og sömu afglöp verði áfram haldið í þeirri ríkisstjórn sem hann situr nú í.

Virðulegi forseti. Þessi málflutningur hv. þm. Helga Hjörvars er honum ósæmandi.