137. löggjafarþing — 10. fundur,  28. maí 2009.

olíugjald og kílómetragjald o.fl.

56. mál
[21:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ætli ég ráði nú ekki mestu um það hvað mér er sæmandi. Þau mistök sem við horfumst fyrst og fremst í augu við eru þau að Alþingi Íslendinga lækkaði skatta á alversta tíma. Hér á Alþingi Íslendinga voru skattar lækkaðir gríðarlega í hámarki þenslunnar, einmitt þegar ástæða var til þess að standa vörð um þá. Það gerir það að verkum að núna þegar dregur úr öllum umsvifum í samfélaginu, úr allri neyslu og atvinnu, hrapa tekjurnar niður. Þær skattprósentur sem við höfðum áður hafa verið lækkaðar einmitt þegar ekki átti að gera það.

Það veldur því að við þurfum nú á allra erfiðasta og versta tíma (Gripið fram í.) að standa fyrir gjaldahækkunum og skattahækkunum með alls kyns neikvæðum hliðarverkunum, því miður. Ég játa að ég tel að þær hækkanir sem hér um ræðir, þ.e. hækkanir á áfengi, tóbaki, olíu og bensíni, séu sannarlega hækkanir sem séu ákjósanlegri en margar aðrar skattahækkanir sem lagst geta á fjölskyldufólk í landinu.