137. löggjafarþing — 10. fundur,  28. maí 2009.

olíugjald og kílómetragjald o.fl.

56. mál
[21:04]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Helga Hjörvar er tíðrætt um það sem var og hvernig hlutirnir voru. Hann ætlar samt, samkvæmt því sem hann sagði hér, að halda áfram sömu vitleysunni, gera sömu mistökin og hann talar um að gerð hafi verið í tíð Sjálfstæðisflokksins.

Það vill nú þannig til, frú forseti, að í desember þegar fjárlögin fyrir árið 2009 voru afgreidd sátu tveir flokkar í ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin. En það er eins og Samfylkingin hafi aldrei komið nálægt stjórn þessa lands. Hún gleymir algjörlega setu sinni í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum frá því í maí 2007 þar til 1. febrúar 2009.

Hún ber jafna ábyrgð og Sjálfstæðisflokkurinn. Hún ber jafna ábyrgð á öllu því sem gert var á stjórnartíma þeirrar ríkisstjórnar á nákvæmlega sama hátt og hv. þm. Helgi Hjörvar segir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi borið ábyrgð á í 18 ára valdatíð sinni. Það er ekkert flóknara en það.

Menn skulu því tala hér mannamál, íslensku, og segja það sem satt er og rétt en reyna ekki alltaf að skjóta sér undan ábyrgð með því að vísa á einhvern annan. Það er að mínu mati ósæmandi. Menn bera ábyrgð á gjörðum sínum hvort sem þær eru góðar eða vondar. Og menn vísa ekki alltaf á það sem er illa gert af hálfu hinna til þess að réttlæta sinn eigin málflutning. Það er ekki bara ósæmilegt, það er afburðahallærislegt.