137. löggjafarþing — 10. fundur,  28. maí 2009.

olíugjald og kílómetragjald o.fl.

56. mál
[21:06]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú verður hver þingmaður að ráða því sjálfur hvað henni þykir hallærislegt. Ég held hins vegar að hv. þingmaður hafi verið að hlusta á ræður einhverra annarra manna en mín eftir orðum hennar að dæma því að ég dró enga dul á að við áttum aðild að sams konar ákvörðunum með Sjálfstæðisflokknum í vetur. Ég bar fulla ábyrgð á þeim þá eins og nú. Það eina sem ég undraðist var hvílíkur umskiptingur sá flokkur er í málinu.

Ég hef leitast við í þessari umræðu að tala íslensku. Þegar blasir við svo gríðarlegur vandi eins og nú þarf að taka erfiðar ákvarðanir og þá þarf að hækka verð á áfengi, (Gripið fram í.) tóbaki, olíu og bensíni. (Gripið fram í.) Það er einfaldlega það sem við blasir og það er erfitt. Það er ein af fjölmörgum erfiðum ákvörðunum sem við munum þurfa að taka.

En ég talaði ekki um að Samfylkingin bæri ekki ábyrgð heldur held ég að ég hafi sagt orðrétt, hv. þingmaður, að Sjálfstæðisflokkurinn bæri ekki minni ábyrgð á þessum skattahækkunum en sú ríkisstjórn sem nú situr. Ég undanskildi okkur ekki ábyrgðinni. En Sjálfstæðisflokkurinn ber ekki minni ábyrgð á þeim gjaldahækkunum sem hér eru að verða en þeir sem fyrir í ríkisstjórninni fara í dag.