137. löggjafarþing — 10. fundur,  28. maí 2009.

olíugjald og kílómetragjald o.fl.

56. mál
[21:12]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Það liggur orðið nokkurn veginn ljóst fyrir hver víxláhrifin af þessu frumvarpi eru. Til þess að ríkissjóður geti hækkað tekjur sínar um 2,7 milljarða á að hækka ríkisskuldir um — ég veit ekki nákvæmlega um hvað marga milljarða. Það á að hækka skuldir heimilanna um 8 milljarða. Það á að hækka skuldir fyrirtækjanna um að minnsta kosti annað eins. Og ekki nóg með það heldur lækkar skattheimta af beinum sköttum ríkissjóðs við þetta vegna þess að persónufrádráttur er vísitölubundinn og mun hækka við þetta. Nettóáhrifin af því eru minni tekjur fyrir ríkissjóð upp á rúma 5 milljarða. [Leiðr. ræðumanns: 500 milljónir. Sjá ræðu hans 28. maí kl. 23.15.]

Þarna erum við ekki búin að taka tillit til almannatrygginganna. Það sem mig langar til þess að spyrja um er: Ætla menn að beita sér fyrir því að vísitölutengingin verði afnumin í almannatryggingum til þess að fá ekki út þessi heildaráhrif? Það er rétt að ég spyrji formann efnahags- og skattanefndar að því.

Það eru mjög erfiðir tímar og erfiðar ákvarðanir sem þarf að taka, margar mjög erfiðar. En það er algjörlega á hreinu að það er óþarfi að taka rangar ákvarðanir. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þess vegna skora ég á hæstv. fjármálaráðherra að draga þetta frumvarp til baka og alla vegana að athuga hvort ekki sé eitthvert vit í þeirri gagnrýni sem hér hefur komið fram. Það er ósvinna að gera þetta.

Það er rétt að það voru sambærilegar hækkanir sem gengu í gegn fyrir áramót í tengslum við fjárlagagerðina fyrir árið 2009. Það var í einhverju heildarsamhengi og sennilega hefur verið þá eins og núna að ekki hefur verið hugsað fyrir heildaráhrifunum, víxláhrifunum. Því fer fjarri að ég ætli að verja þá ákvörðun.

En það er munur á þeirri ákvörðun og þessari. Sú ákvörðun var tekin í einhverju heildarsamhengi. Hér er verið að taka ákvörðun sem líkist bút í einhvers konar bútasaumi. Hvert er hæstv. ríkisstjórn að fara með þessum málum sínum? Ætlar hún ekki — mér liggur við að segja, afsakið hæstv. forseti — að skammast til þess að gera þetta almennilega og af einhverri hugsun? Á þetta allt saman að vera einhver handarbakavinna þar sem ekki er búið að hugsa fyrir neinu?

Vinstri flokkarnir hafa mikið talað um að þeir ætli að vernda alþýðu þessa lands og passa upp á að stóri vondi Sjálfstæðisflokkurinn komist ekki nálægt henni … (Utanrrh.: Stóri? Þú meinar litli.) [Hlátur í þingsal.] Hann var stór á þeim tíma.

Það er eitt sem hægt er að segja vinstri flokkunum til hróss, það er að þeim tókst að hræða hinn almenna kjósanda frá Sjálfstæðisflokknum. (Gripið fram í.) Með alls konar útúrsnúningum og brigslyrðum. En að þetta sé sá faðmur sem lofað var að mundi vernda alþýðu þessa lands — ég held að þið ættuð að skammast ykkar.