137. löggjafarþing — 10. fundur,  28. maí 2009.

olíugjald og kílómetragjald o.fl.

56. mál
[21:17]
Horfa

Þór Saari (Bhr):

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram hér aftur og aftur hvers konar vanhugsun býr að baki þessu frumvarpi. Ég kem hérna upp aftur einfaldlega til þess að ítreka það sem ég sagði áðan, að niðurstaðan úr þessu frumvarpi þýðir milljarða króna aukningu á skuldum ríkissjóðs.

Við í Borgarahreyfingunni áttum ágætissamtal við fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í gær í hinum mjúku stólum á Hótel Holti. Ég get nú ekki sagt annað en að eftir þann fund líði mér mun verr yfir efnahagsástandinu. En það sem kom fram þar var einmitt það sem kristallast í þessu frumvarpi. Þeir sögðu ítrekað að það hefði gengið of seint að koma með tillögur, það hefði gengið of seint af hálfu stjórnvalda að gera þetta og hitt. Þeir voru ekki ánægðir með viðbrögð stjórnvalda. Að mínu viti er það góðs viti ef Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er óánægður en það er annað mál.

Það sem kristallast í þessu frumvarpi er að ríkisstjórnin hleypur upp til handa og fóta og flýtir sér af stað með frumvarp til þess að þjónka Alþjóðagjaldeyrissjóðnum vegna þess að hann hristir hornin framan í hana. Ríkisstjórnin kemur fram með frumvarp sem er einfaldlega illa unnið og vont. Ég skora á fjármálaráðherra að draga frumvarpið til baka og laga það og fá álit Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í staðinn, heyra hvað honum finnst um svona frumvörp sem lögð eru fram og auka skuldir ríkissjóðs. Það væri áhugavert að fá álit þeirra á þessu máli.

Að öðru leyti ætla ég ekki að tala meira um þetta mál nema að ríkisstjórninni væri sómi að því draga þetta frumvarp til baka.