137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

kjarasamningar og ESB-aðild.

[10:43]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður má halda áfram að reyna að rangtúlka það sem ég er að segja og reyna að halda því fram að ég hafi sagt eitthvað annað en ég sagði. Ég hef hvergi sagt þetta og aldrei látið að því liggja að ég væri að tala fyrir aðila vinnumarkaðarins í þessu máli. Þeir tala fyrir sig og útskýra sín sjónarmið sjálfir. Ég var að ræða hér með almennum hætti þau sjónarmið sem liggja til grundvallar tiltekinni tillögu sem liggur fyrir þinginu.

Það er hins vegar þannig að aðildarumsókn að Evrópusambandinu er mikilvægt skref í átt að því að treysta stöðugleika og leggja grunn að skýrri framtíðarsýn fyrir atvinnulífið í landinu. Þetta viðurkenna flokkssystkin hv. þingmanns. Þess vegna samþykkti flokksþing framsóknarmanna aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Hv. þingmaður (Gripið fram í.) virðist vera í bullandi mótsögn við sinn eigin flokk og maður veltir því fyrir sér á hvaða vegferð hv. þingmaður er og sumir aðrir þingmenn Framsóknarflokksins sem virðast (Gripið fram í.) ekkert vera að gera með þá afstöðu Framsóknarflokksins (Gripið fram í.) að sækja eigi um aðild að Evrópusambandinu. Það virðist vera sem þau séu á harðahlaupum undan þeirri stefnu sem (Gripið fram í.) flokksfólk er búið að marka og það er náttúrlega undarlegt. Það er algerlega óþarfi að reyna að gera mér upp skoðanir til að breiða yfir þennan augljósa klofning í Framsóknarflokknum. (Gripið fram í: ... svara spurningunni?)