137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef ekki verið mikill talsmaður flokksræðis eða ráðherraræðis eða slíks og hef yfirleitt haft mínar eigin skoðanir og túlka þær og tjái. Þetta hefur verið rætt mikið í Sjálfstæðisflokknum og menn verið að skoða þetta og þegar að sá tími rennur upp að við erum komin yfir þennan hjalla sem tekur tvö, þrjú ár ef vöruskiptajöfnuðurinn helst svona jákvæður, þá höfum við þann tíma til að skoða hvað þá tekur við. Það má vel vera að eftir tvö, þrjú ár bindi menn krónuna við einhverja mynt. Það hefur verið talað um það. Það hefur líka verið talað um að taka upp aðra mynt og þá er spurning hvaða mynt. Menn hafa nefnt að norska krónan sé mjög nálægt íslensku atvinnulífi vegna þess að Norðmenn, eins og við, eru bæði fiskútflytjendur og orkuútflytjendur. Íslendingar eru, ég nærri fullyrði, mesta orkuútflutningsþjóð í heimi og þess vegna eigum við að gleðjast núna þegar olíuverðið hækkar af því að við flytjum út svo mikla orku í formi áls. Norðmenn eru mjög nálægt okkur en það getur vel verið að dollarinn sé líka góður kostur eða SDR sem Kínverjar vilja taka upp sem alþjóðlega mynt. Ég hygg að á næstu tveim, þrem árum verði gífurlegar breytingar einmitt á alþjóðasviðinu varðandi myntir og það má vel vera að þá verði komnar lausnir. En fyrst þurfum við að vinna okkur út úr þeim vanda sem eru jöklabréfin og krónur í eigu útlendinga því að þær krónur vilja fara út. Og þegar við erum búin að því með jákvæðum vöruskiptajöfnuði þá tökum við upp aðra stefnu, vænti ég, eða viðhöldum krónunni ef okkur sýnist hún orðin svo sterk.