137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:41]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanninum fyrir afar vandaða, málefnalega og góða ræðu. Ég er sammála svo að segja öllu sem hv. þingmaður sagði.

Ég er henni algjörlega sammála um að það er ekki rétt aðferð að fara í tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu, það hefur engin þjóð gert. Rökin sem menn hafa teflt gegn því er að það mundi veikja samningsstöðuna að fara í viðræður með slíka atkvæðagreiðslu að baki.

Í öðru lagi vil ég líka upplýsa að áður en ég lagði fram þessa tillögu ræddi ég og þáði ráð frá öllum utanríkisráðherrum Norðurlandanna. Ég ætla ekki að greina frá því hvers eðlis þau ráð voru en þau voru mjög mikilvæg. Það er ekki tilviljun að ég legg áherslu á þessar tímasetningar, ástæðan er vitaskuld sú að eitt öflugasta ríki Norðurlandanna verður þá með forustu í Evrópusambandinu og það skiptir okkur mjög miklu máli að það sé það ríki sem veitir umbúnaðinn um þessa umsókn.

Ég er svo algjörlega sammála því sem hv. þingmaður sagði, það er hægur leikur að þætta þessar tvær tillögur saman. Ég get ekki skilið þá tillögu sem hv. þingmaður er aðili að og ræddi lítillega, öðruvísi en svo að þar er því bókstaflega slegið föstu að þeir sem flytja þá tillögu eru reiðubúnir til þess að skoða það mjög ítarlega að fara þá leið að sækja um aðild að Evrópusambandinu svo fremi sem víðtæk sátt náist og að meginhagsmunir Íslands í aðildarviðræðum hafi fengið fullnægjandi faglega umfjöllun. Þar með tel ég að við séum komin á sömu slóð.

Það sem lagt er til í þeirri tillögu að gert verði er þess eðlis að það er hægur leikur að ljúka a.m.k. öðru verkefninu á fimm dögum, hinu á hálfum mánuði. Gögnin liggja fyrir. Það er sjálfsagt að utanríkismálanefnd og þingið fái aðild að þessu máli með þeim hætti sem hún vill, því hef ég lýst yfir. Það breytir ekki hinu að samningur af þessu tagi verður alltaf gerður af framkvæmdarvaldinu en það getur gert það í mjög nánu samráði við löggjafarvaldið.