137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:43]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er líka þeirrar skoðunar að æskilegt væri að nýta formennsku Svía í Evrópusambandinu til þess að sækja um fyrir hönd Íslands. Það er ekki nauðsynlegt en það er mjög æskilegt þannig að ég tel að þingið eigi að leggja mikla vinnu og skoða þessi mál fljótt. Ef hægt er að ná saman væri gott að geta gert það á frekar stuttum tíma, segjum á einhverjum vikum. Það þýðir auðvitað að utanríkisnefnd þarf að vinna ansi þétt.

Ég tel líka að unnt sé að samþætta þessar tvær tillögur og ég heyri að hæstv. utanríkisráðherra undirstrikar það hér sérstaklega og er með því að mínu mati að teygja sig í átt til stjórnarandstöðunnar. Það hlýtur að felast í því að hæstv. utanríkisráðherra er tilbúinn til þess að skoða mjög náið skilyrði þau sem Framsóknarflokkurinn hefur sett fyrir aðildarumsókn.

Það er rétt sem hæstv. ráðherra segir að þingsályktunartillaga framsóknarmanna og Sjálfstæðisflokks gengur út á að utanríkismálanefnd undirbúi mögulega umsókn um aðild að Evrópusambandinu enda er það í anda Framsóknarflokksins að gera það. Það er algjörlega skýrt að Framsóknarflokkurinn samþykkti á mjög stóru flokksþingi að sækja um aðild en með vissum skilyrðum þannig að það þarf ekki að fara í grafgötur með það. Ég vil því túlka orð hæstv. utanríkisráðherra sem svo að hann sé allur af vilja gerður til að teygja sig eftir skilyrðum Framsóknarflokksins (Forseti hringir.) og þeirri tillögu sem framsóknarmenn og sjálfstæðismenn hafa lagt fram hér í þinginu.