137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:08]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Hvað er lýðræði? Lýðræði er sú stjórnunaraðferð sem kallar fram og endurspeglar vilja fólksins í málefnum sem varða almannaheill og samfélagslega hagsmuni. Algengasta lýðræðisform vestrænna samfélaga er fulltrúalýðræðið. Það birtist m.a. í þingræðinu, þar sem kjörnir fulltrúar hafa það hlutverk að gæta hagsmuna almennings og endurspegla vilja kjósenda sinna. Það er vandasamt hlutverk, það kallar á djúpa virðingu fyrir megingildum lýðræðis og mannréttinda.

Annað form lýðræðisins er hið svokallaða beina lýðræði sem byggir einfaldlega á því að almenningur sjálfur segir til um vilja sinn í þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál. Beint lýðræði býður þó upp á þá hættu að verða misnotað ef ekki er gulltryggt að þjóðin hafi skýran valkost og fulla vitneskju um það sem kosið er um.

Frú forseti. Oft hefur þessum tveimur lýðræðisformum verið teflt hvoru gegn öðru en í þeirri þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir eru helstu kostir þessara tveggja lýðræðisaðferða sameinaðir. Hér er lagt til að hv. þingmenn, kjörnir fulltrúar fólksins, setji af stað lýðræðislega málsmeðferð í einu veigamesta hagsmunamáli þjóðarinnar á síðari tímum. Tillagan gerir ráð fyrir að Alþingi beiti þingræðinu til þess að leiða málið til lykta utan þingsins með beinu og milliliðalausu lýðræði, þ.e. í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þetta er sögulegt tækifæri fyrir Alþingi Íslendinga til að sýna í verki ómetanlegt fordæmi um framkvæmd sjálfs lýðræðisins. Þetta er mikilvæg stund vegna þess að hún markar spor í lýðveldissöguna. Hér hafa tveir stjórnmálaflokkar komið sér saman um meðferð á máli sem þeir þó eru ósammála um í grundvallaratriðum. Þeir eru sammála um málsmeðferðina vegna þess að báðir virða þeir lýðræðið. Þeir hafa ákveðið að treysta þjóðinni og hlusta eftir vilja hennar.

Frú forseti. Í þessu tiltekna máli má líkja flokkunum tveimur við tvö knattspyrnulið sem etja kapps um lyktir leiksins en hafa komið sér saman um að virða leikreglur og hlýða dómaranum. Dómarinn í þessu máli er þjóðin. Ég fagna þess vegna þeirri þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu. Þetta er merkileg tillaga, hvernig sem á hana er litið, frú forseti.

Nú hefur það gerst að hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa lagt fyrir þingið aðra þingsályktunartillögu um sama mál, tillögu sem er í meginatriðum efnislega samhljóða þeirri sem hér er til umræðu. Það sem skilur á milli er orðalag um það hvernig samningsmarkmið þjóðarinnar verði sett fram í aðildarviðræðunum. Hér er bitamunur en ekki fjár og augljóst að stjórnarandstöðunni er mjög í mun að fá að koma að þessu máli og setja á það fingraför sín. Það er góðra gjalda vert, enda er málið veigamikið og ég hef fulla trú á því að Alþingi Íslendinga muni leiða málið til lykta með fullum sóma eins og fullt tilefni er til.

Eins og ég nefndi í umræðum í gær, frú forseti, er rétt að halda því til haga að Ísland er mjög vel í stakk búið til að ganga til viðræðna við Evrópusambandið nú, því að sjálfsagt hefur ekkert ríki í sögunni verið jafn vel undirbúið undir aðildarumsókn eins og við erum á þessari stundu. En ég get ekki skilið við umræðuna án þess að deila með þingheimi þeirri framtíðarsýn sem ég hef fyrir hugskotssjónum í tengslum við þetta mál, frú forseti.

Ég ber í brjósti þá von að aðildarumsókn að Evrópusambandinu muni leiða í ljós margþætta kosti þess að ganga í Evrópusambandið. Ég vona og vil að við Íslendingar, sú sjálfstæða og fullvalda þjóð sem við erum, getum óhrædd stigið inn á vettvang Evrópusamfélagsins, sótt okkur þangað tilstyrk og fyrirmynd til frænda okkar og nágranna, verið þjóð meðal þjóða í samráði og samstarfi um málefni sem varða ekki aðeins okkur sem eyland, heldur tilvist okkar í heimsþorpinu Jörð. Ég trúi því staðfastlega að innganga í Evrópusambandið muni þýða fyrir okkur bætt lífskjör í landinu með stöðugra efnahagsumhverfi, styrkari stjórnsýslu og virkara lýðræði, bætt markaðs- og viðskiptaumhverfi atvinnuveganna, byggðaþróun á víðum grunni, aukna sjálfbærni og vistvænni framleiðsluhætti og síðast en ekki síst fjölbreyttari menntunar- og atvinnumöguleika fyrir ungt fólk.

Engum vafa er undirorpið að brýnasta hagsmunamálið um þessar mundir er að endurheimta jafnvægi í efnahagslífinu. Það er von mín að með inngöngu í Evrópusambandið verði stigin skref í átt til stöðugra efnahagslífs og bættra lífskjara með upptöku evru innan fárra ára. Að hér verði hagstæðara rekstrarumhverfi fyrir undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar, sjávarútveg og landbúnað, með áherslu á samkeppnishæfi, umhverfis- og náttúruvernd í sveitum, bætt lífsgæði, fullvinnslu afurða og hreinleika, vistvænar veiðar, vöruþróun og markaðssetningu.

Ég bind vonir við byggðastefnu Evrópusambandsins um styrkingu veikra svæða, aukna samkeppnishæfni, styrkingu nýsköpunar, þekkingar og grunngerða á borð við samgöngur og fjarskipti í dreifbýli. Líkt og aðrir jafnaðarmenn læt ég mig dreyma um sambærileg lífskjör landsmanna óháð búsetu og að þeir eigi greiðan aðgang að menntun, atvinnu og þjónustu. Stefna Evrópusambandsins er m.a. að jafna félagslega og fjárhagslega stöðu íbúa í álfunni með áherslu á menntun og að styrkja stöðu hópa sem eiga undir högg að sækja, þar á meðal innflytjenda, fatlaðra, ungmenna, aldraðra o.fl.

Frú forseti. Aðildarumsókn og síðan samningsdrög eru einu haldbæru vísbendingarnar sem við getum fengið um þá möguleika sem innganga í Evrópusambandið getur falið í sér. Mikilvægt er að samningsmarkmið viðræðnanna séu skýr, að ekki verði fallið frá forræði yfir fiskimiðum eða öðrum auðlindum, svo dæmi sé tekið, og að kynningin á samningsdrögunum verði öflug og hnökralaus þegar þar að kemur. Að þessu uppfylltu held ég að við þurfum ekki að óttast dóm þjóðarinnar. En fyrst af öllu verðum við þó að búa svo um hnútana að þjóðin fái málið til úrskurðar; að hún hafi eitthvað haldbært sem hún getur tekið afstöðu til.

Þær þingsályktunartillögur sem hafa verið hér til umræðu og liggja fyrir þinginu eru báðar í rauninni til þess fallnar að greiða þá leið. Ég vil líka nota þetta tækifæri og fagna þeim málflutningi sem hér hefur verið í dag í málinu og þá sérstaklega tóninn sem sleginn hefur verið hjá hv. þingmönnum Siv Friðleifsdóttur og Árna Þór Sigurðssyni og hæstv. utanríkisráðherra, Össuri Skarphéðinssyni, því að sá málflutningur hefur verið í anda eindrægni og samkomulagsvilja og óskandi væri að fleiri slíkir tónar væru slegnir í málflutningi á hinu háa Alþingi á þeim erfiðu tímum sem við lifum nú. En síðast en ekki síst, svo ég taki mál mitt saman í eina einlæga von, hún er sú að Alþingi Íslendinga muni afgreiða þetta mál í þeirri sátt sem málinu sæmir.