137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:18]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Afstaða mín til þessarar þingsályktunartillögu liggur fyrir skýr og afdráttarlaus, heiðarleg og gegnsæ. Hún lá fyrir við ríkisstjórnarmyndun áður en ríkisstjórnin var sett saman og samþykkt innan flokkanna, þannig að menn ganga að þessu skýru. Kannski er þetta tákn um hið nýja Ísland, menn geta og munu fylgja sannfæringu sinni og samvisku í meira mæli en áður hefur tíðkast í íslensku flokksræði.

Hvað rökstuðning fyrir þessari afstöðu varðar gæti ég hreinlega látið staðar numið og vísað í prýðilegar ræður samþingmanna minna, hv. þingmanna Ásmundar Einars Daðasonar og Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, en alltént geri ég orð þeirra að mínum. Ég hef sest yfir þetta mál, vegið það og metið frá öllum hliðum, metið kosti Evrópusambandsaðildar, sem hvarflar ekki að mér að neita að séu til staðar, vegið gallana þar á móti og komist að þeirri niðurstöðu að innganga í ESB sé ekki gæfuspor fyrir Ísland. Gallarnir séu sem sé veigameiri og sýnu alvarlegri en kostir aðildar.

Ég var þeirrar skoðunar og er þeirrar skoðunar enn að kostir og gallar og inngönguskilyrði og annað liggi fyrir nákvæmlega, hvaða kjör við fáum innan Evrópusambandsins, 95–98%, jafnvel meira. Við vitum hvað tíu nýjustu þjóðir ESB hafa fengið og hvað þær hafa ekki fengið, hvað þær hafa sótt um og ekki fengið. Við vitum líka að allar Evrópuþjóðirnar 26 þurfa að samþykkja aðild Íslands, verði af samningum og samþykki hér heima í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég hef sagt að það sé vandséð að hinar nýju þjóðir í ESB sem ekki hafa fengið undanþágur frá meginreglum sambandsins muni samþykkja það að Íslandi verði veittar þær undanþágur sem okkur eru svo nauðsynlegar og allir vilja sækjast eftir. Ég hefði kosið að það færu fram könnunarviðræður nákvæmlega um ákveðin tilgreind atriði sem eru brýnust í mínum huga, í báðum tilvikum auðlindir, þ.e. auðlindir til sjávar og sveita. Ég lít á fiskinn í sjónum sem auðlind, það sem er á hafsbotninum og undir honum sem auðlind og ég lít líka á jarðnæði, hreint vatn, hreint og tært loft og gróðurmold sem auðlind sem nýtist landbúnaði okkar ákaflega vel. Þetta eru okkar dýrmætustu auðlindir og þetta eru afar dýrmætar auðlindir í þeirri stöðu sem heimurinn er í í dag.

Það sem blasir við heiminum í dag og alvarlegustu vandamál heimsins í dag, ef maður er alheimssinni eða alþjóðasinni eins og ég er, það er í fyrsta lagi skortur á vatni, sem við höfum gnægð af, í öðru lagi skortur á fæðu, sem við höfum gnægð af. Ég hygg að Evrópusambandið hafi mikinn áhuga, og sýni hann beinlínis t.d. með yfirlýsingum varðandi sjávarútvegsmálin, að komast hingað

Það segir í þingsályktunartillögunni að meðal grundvallarhagsmuna Íslands sé:

„Að tryggja forræði þjóðarinnar yfir vatns- og orkuauðlindum og ráðstöfun þeirra.

Að tryggja forræði þjóðarinnar yfir fiskveiðiauðlindinni, o.s.frv.

Að tryggja öflugan íslenskan landbúnað á grundvelli fæðuöryggis og matvælaöryggis.“

Miðað við meginreglur ESB og miðað við þá samninga sem nýjar þjóðir innan ESB hafa gert munum við ekki ná þessum markmiðum. Það er að mínu mati tálsýn. Ég hefði sem sagt kosið könnunarviðræður með eftirfarandi spurningu: Fáum við undanþágu frá sjávarútvegsstefnu ESB varanlega, fáum við undanþágu frá landbúnaðarstefnu ESB varanlega? Ef það hefði orðið niðurstaða könnunarviðræðna hefði ég hugsanlega getað farið í þessa vegferð sem menn eru að leggja upp í sem ég er ósammála.

Það er tálsýn að mínu mati að við fáum varanlegar undanþágur í sjávarútvegsstefnu og landbúnaðarstefnu. Mér nægir vafinn. Ég vil túlka vafann, eins og menn gera í lögfræðinni, íslensku þjóðinni og íslenskum hagsmunum í hag. Meðan vafi er fyrir hendi í málinu get ég ekki skrifað undir þessa þingsályktunartillögu. Ég hefði talið að við gætum komist að því 98–99% eða tekið grundvallarhagsmunina og fengið já eða nei við því og lagt svo umsóknaraðild undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Það veldur mér vissum vonbrigðum að Borgarahreyfingin skuli ekki styðja þá leið að það fari undir atkvæðagreiðslu þjóðarinnar hvort við eigum að sækja um eða ekki. En það er annað mál.

Meginatriðið varðandi þessar röksemdir mínar gagnvart auðlindunum, gagnvart landbúnaði, gagnvart fiskveiðum, er sú að aðrar þjóðir hafa ekki fengið þessa hluti. Undanþágur að þessu marki ganga gegn grundvallarhugmynd Evrópusambandsins, þ.e. að mynda eitt sameiginlegt markaðssvæði. Það kann að vera góðra gjalda vert ef það samræmist hagsmunum Íslands. Það er verið að búa til eitt markaðssvæði, eitt ríki, og Evrópusambandið getur aldrei samþykkt að hluti af þessum vörum, fiskurinn, landbúnaðarvörur og annað, sé tekið undan meginreglunni, grunnstoð Rómarsáttmálans. Það er mín niðurstaða. Engin þjóð hefur fengið varanlegar undanþágur, eingöngu aðlögunartíma í þrjú til fimm ár, það eru ekki forsendur fyrir því. Finnar fengu þetta ekki nema fyrir norðursvæði Finnlands í landbúnaði, nyrstu svæði Finnlands. Við erum ekki í sömu stöðu.

Ég verð að segja að Heimssýn hefur gefið út ákaflega góðan bækling þar sem eru tilfærðar 12 ástæður til að hafna Evrópusambandsaðild og ég hvet þá sem á mál mitt hlýða og horfa að kynna sér þennan bækling og ganga til liðs við Heimssýn í baráttu gegn þessu máli, því að ég lít svo á líka, og það held ég að allir samþykki sem nærri þessu máli koma, að samningar kalli á afsal á tilteknu fullveldi okkar. Fyrir mér er þetta sjálfstæðisbarátta. Ég virði sjónarmið þeirra sem ganga fram fyrir skjöldu og kjósa Evrópusambandsaðild, hagsmunamat þeirra lýtur öðrum rökum og grundvallarsjónarmiðum en mitt og ég veit að stuðningsmenn Evrópusambandsaðildar virða gagnsjónarmið flutt fram af rökum og reynslu.

Fullveldisframsal sagði ég, vegna þess að við missum yfirráðin yfir fiskveiðilögsögunni, að gera fiskveiðisamninga við önnur ríki, að gera viðskiptasamninga, að afnema eða leggja á tolla sem okkur eru mjög brýnir í dag til að vernda innlenda framleiðslu og atvinnu og spara gjaldeyri. Hluti dómsvaldsins eða dómsvaldið flyst út.

Í þessum bæklingi Heimssýnar er talað um að nýtt stórríki myndist, völd litlu ríkjanna fari minnkandi, samþjöppun valds sé ólýðræðislegt, valdamiðstöðin verði fjarlægð. Ég þekki það hér á Íslandi hvernig valdamiðstöðin er fjarlægð landsbyggðaríbúum á Íslandi, ég þekki það hvernig valdið hverfist um Reykjavík. Stofnanir eru í Reykjavík, stjórnmálaflokkar starfa í Reykjavík og starfsfólk þeirra, þingið er í Reykjavík, allar æðstu stofnanir og stjórnvöld eru þar. Íbúum landsbyggðarinnar, sérstaklega þegar lengra er komið frá Reykjavík í mesta dreifbýlinu, finnst þeir vera afskiptir. Góðærið kom aldrei þangað, það er bundið við höfuðborgarsvæðið og ruglið.

Þeir tala um í þessum bæklingi að atvinnuleysi sé eitt helsta einkenni ESB. Það er rétt. 20% atvinnuleysi á Spáni. Þeir tala um myntsvæði, úrslitavald yfir auðlindum. Við eigum gnótt auðlinda sem ESB sækir í. Við eigum hafsvæðið í kringum Ísland sem ég hygg að sé stærra en allt hafsvæði ESB-landanna. Þess vegna leggja þeir fyrir okkur beitur. Þeir tala um að hernaðarveldi sé í uppsiglingu og þeir tala í tíunda lagi um kvótalaust sjávarþorp. Verður Ísland verstöðin Ísland? Getum við yfirfært reynslu okkar af óskertu framsali á Íslandi til þess að Ísland verði verstöðin Ísland? Er það hugsanlegt? Hverjum eigum við að túlka þennan vafa í hag? Eigum við að taka áhættu, eigum við að taka þennan vafa?

Hvað gerðist í framsalsmálum kvótakerfis og fiskveiðistjórnar á Íslandi? Hvað gerðist á Breiðdalsvík, Flateyri, Ísafirði? Verður ekki verstöðin Ísland ein samfelld Breiðdalsvík, kvótalaus Breiðdalsvík? Er það hugsanlegt? (Utanrrh.: Nei.) Nei, segir hæstv. utanríkisráðherra, en hann hefur ekki sannfært mig enn þá með reynsludæmum úr aðildarumsóknarsögu ESB. Reynslan er ólygnust. Samningsréttur glatast og það liggur líka fyrir að aðild er þungt högg fyrir landbúnaðinn og ekki bara fyrir landbúnaðinn, ef landbúnaðurinn kiknar þá kiknar búseta á landsbyggðinni. Það er líka alvarlegt mál.

Bændasamtök Íslands hafa unnið afar faglega úttekt á stöðu landbúnaðarins og búnaðarþing samþykkti andstöðu gegn ESB-umsókn. Þar eru fulltrúar allra flokka sem samþykktu það samhljóða að ESB-umsókn og ESB-aðild væri andstæð hagsmunum bænda. Ég tek mark á því. Þar er a.m.k. verulegur rökstuddur vafi ef ekki fullvissa vegna þess að við getum borið okkur saman við Finna í þeim efnum.

Hingað kom fyrir skemmstu merkismaður frá Noregi, Dag Seierstad, fyrrverandi þingmaður á norska þinginu, sem hefur fylgt nei-baráttunni í Noregi frá upphafi, frá 1970, og hann flutti fyrirlestra uppi í háskóla og mætti á fundi. Hann hefur fylgst mjög grannt með Evrópusambandsmálum allt frá 1971. Hann tók þátt í baráttunni í Noregi 1971 til 1972 og hann tók þátt í baráttunni 1994. Fengu Norðmenn tilslakanir í sjávarútvegsstefnu- og landbúnaðarmálum 1994? Nei. Fengu Finnar það, fengu Pólverjar það, fengu Maltverjar það, fengu Kýpurbúar það? Nei. (Gripið fram í: Maltverjar fengu það.) Nei, mjög takmarkaðar undanþágur sem hafa ekkert með þetta mál að gera sem hér er um rætt.

Dag Seierstad, þessi reynslubolti, þessi reynsluríki maður, málefnalegur og faglegur á alla kanta, sem flytur mál sitt með rökum og faglegum hætti, hann segir: Engar undanþágur í boði hjá ESB. Ég vil hafa það á borðinu.

Þess vegna er það svo að í tillögunni til þingsályktunar er tekið fram, ég held að það sé af fullum vilja og fullum heilindum, að það eigi að tryggja þá grundvallarhagsmuni sem ég gerði að umtalsefni. Þar segir: „Meðal grundvallarhagsmuna Íslands eru: Að tryggja forræði o.s.frv.“, eins og ég hef rakið fyrr í ræðu minni. Þetta eru ekki samningsskilyrði, þetta er góður hugur, en þetta eru ekki forsendur þess að samningur verði gerður.

Ég hef ekki haft tíma í ræðu minni til að rekja kosti ESB en ég tel okkur ágætlega vel setta innan EES þó að ég velti því stundum fyrir mér hvort það séu ekki þeir ágallar á því að það megi snúa af þeirri braut.