137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:40]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég efast ekki um lýðræðisást hæstv. utanríkisráðherra og ég held að hann ætti ekki að sá frækornum efasemda um lýðræðiskenndir mínar, (Utanrrh.: Nei, nei, ég geri það heldur ekki.) þær eru djúpstæðar og mannréttindin þar með.

Af hverju ekki að nota lýðræðið? Jú, ég tók það skýrt fram að ég vildi það, ég vildi færa það til þjóðarinnar með upplýstri umræðu af því að við vitum hvað við fáum, af því að við vitum reynslu annarra þjóða. Ég spyr hæstv. utanríkisráðherra: Af hverju fáum við sérmeðferð og undanþágur sem aðrar þjóðir hafa ekki fengið, þær síðustu tíu sem gengið hafa í ESB? Af hverju er sérstaða okkar slík að við fáum undanþágu frá auðlindamálunum, fiskveiði og landbúnaði?

Ég hygg að hæstv. utanríkisráðherra ætti að lesa hvað landbúnaðinn varðar skýrslu Halldórs Ásgrímssonar, þáverandi utanríkisráðherra, um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi sem lögð var fram á Alþingi 1999–2000. Það er alveg sama inn í hvaða grein landbúnaðar er komið þar, mjólk, sauðfé, nautgripi, Halldór Ásgrímsson kemst að þeirri niðurstöðu að það yrði um mikla afturför að ræða fyrir íslenska bændur, fyrir íslenskan matvælaiðnað, að ganga inn í Evrópusambandið.

Okkur stafar ekki hætta af fuglum, hæstv. ráðherra, en okkur stafar hætta af hráu kjöti og smitsjúkdómum … (Gripið fram í: … fuglaflensuna?) Okkur hefur ekki stafað hætta af því en við lentum í hryllilega vondum málum vegna karakúlfjárins og mæðiveiki og vegna fleiri slíkra atburða. (Forseti hringir.) Ég vil ekki taka neina áhættu þar. Ég vil að bændur og útvegsmenn og íslenska þjóðin (Forseti hringir.) njóti vafans í þessu máli.