137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[13:56]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og þá áherslu sem hann lagði á að þetta væri tilraun til að eiga gott samstarf um þessi mál og aðildarumsóknina. Mér þykir líka mjög mikilvægt að benda á það í þessari umræðu, vegna þess að hv. þingmanni varð tíðrætt um skort á samráði, að á síðustu tveimur þingum var hér starfandi þverpólitísk Evrópunefnd þar sem allir stjórnmálaflokkar áttu aðild að og sömuleiðis atvinnulífið og verkalýðshreyfingin. Þessi Evrópunefnd skilaði af sér um miðjan apríl síðastliðinn. Nefndin sendi spurningar um hagsmunamat til á annað hundrað aðila hvaðanæva í samfélaginu, hagsmunaaðila og samtaka, og fékk svör frá um 70 aðilum sem þetta hagsmunamat byggðist á. Það er því ekki hægt að segja að hér hafi ekki átt sér stað víðtækt samráð í gegnum tíðina og nú síðast þessi niðurstaða í apríl.

Þá er líka mikilvægt að benda á að Samfylkingin skilaði áliti með um 80% atvinnulífsins, sameiginlegu áliti um að sækja bæri um aðild. Eftir þessa víðtæku umræðu þar sem svör bárust frá 70 hagsmunaaðilum komust þessir aðilar að þeirri niðurstöðu að sækja bæri um aðild að Evrópusambandinu og leggja samninginn undir atkvæði þjóðarinnar. Samfylkingin, Alþýðusamband Íslands, Viðskiptaráð, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu og Samtök ferðaþjónustunnar. Mér finnst mikilvægt að halda þessu til haga vegna þess að á þessu víðtæka samráði getum við síðan byggt í sumar þegar við undirbúum umsókn um aðild að Evrópusambandinu.