137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[14:15]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er margt sem við höfum fram að færa. Það eru þau lýðræðislegu gildi sem Evrópusambandið hefur alltaf tekið fast að brjósti sér. Það er sú staðreynd að við erum í EES og höfum þegar kynnst innviðum þess og þeir okkur. Það sem við höfum sérstaklega fram að færa gagnvart Evrópusambandinu er auðvitað sérþekking okkar og reynsla t.d. á sviði fiskveiðistjórnar.

Hvers vegna er það svo að menn leita til vinaþjóða sinna eða vilja heldur vinna með þeim? Það er vegna þess að þeir þekkja þær af reynslunni. Við höfum alltaf litið svo á að Norðurlandaþjóðirnar séu þær þjóðir sem hafa verið okkur vinveittastar og ég held að í svona máli skipti það máli. Í þessu efni munu skipta máli þau tengsl sem íslenskir stjórnmálamenn og íslenska ríkið hefur við vinaþjóðir og stjórnmálamenn. Þetta verða harðir samningar ef í þá verður lagt og takast þarf á við hvert einasta atriði af forníslensku harðfylgi og við munum þurfa á öllu að halda. Því eins og hv. þingmaður hefur bent á í ræðum sínum eru viðfangsefnin erfið, eins og sjávarútvegsmál, eins og landbúnaður og hugsanlega fleiri. Við munum þurfa á öllu okkar atfylgi og líka stuðningi hefðbundinna vinaþjóða að halda.