137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[14:24]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Mér sýnist að smám saman sé að renna upp ljós fyrir stjórnarliðum, þ.e. að sú tillaga sem við ræðum er þörf, afar mikilvæg fyrir þá umræðu sem er fram undan vegna fyrri tillögu ríkisstjórnarinnar. Hún setur málið, ef rétt er á spilunum haldið, í skynsamlegan farveg, nefnilega þann að áður en þingið taki ákvörðun um það af eða á hvort sækja beri um aðild, eða eftir atvikum hvort slíka ákvörðun eigi að bera undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu, sé tryggt að fyrir liggi í greinargerð samantekt á þeim meginhagsmunum sem við Íslendingar höfum að verja í viðræðum okkar við Evrópusambandið um fulla aðild að því.

Það er sannarlega rétt sem komið hefur fram í ræðum í dag að mikið undirbúningsverk hefur verið unnið á þessu sviði. Menn geta þar vísað ýmist til skýrslunnar frá árinu 2007, sem Björn Bjarnason leiddi — (Utanrrh.: Og ég var í.) já, og hæstv. utanríkisráðherra sat í þeirri nefnd. Menn geta líka vísað til skýrslunnar sem kom út núna í apríl, skýrslu nefndar um þróun Evrópumála, en sú nefnd var sett á laggirnar til að starfa mun lengur en raun varð og gaf út eins konar áfangaskýrslu. Í báðum þessum skýrslum er að finna umfjöllun um það hagsmunamat sem þarf að eiga sér stað. Að mati flutningsmanna er þeirri vinnu ekki lokið og það þarf að taka þetta saman á einn stað með heildstæðum hætti og láta eftir atvikum reyna á það hvort stjórnmálaflokkarnir eru sammála um þá hagsmuni sem ber að verja í viðræðunum, ég tel að það geti skipt miklu máli. Það getur skipt máli varðandi forgangsröðun þeirra atriða sem um er að semja við Evrópusambandið.

Það er síðan alveg sérkapítuli þegar menn tala um að samningarnir verði harðir og þeir verði erfiðir. Hæstv. forsætisráðherra hefur sagt að við séum í góðri samningsstöðu og við getum komið heim með fínan samning. Í þeirri umræðu gleyma menn því oft að við erum ekki bara að semja við Evrópusambandið, það er ekki einn viðsemjandi í þeim viðræðum. Nei, þegar Evrópusambandið hefur náð niðurstöðu við okkur gengur sá samningur auðvitað til 27 aðildarríkja Evrópusambandsins og hann þarf að fást samþykktur í hverju og einu þeirra ríkja. Þeim mun betri sem hinn frábæri samningur sem við teljum okkur geta náð í viðskiptum við samningamenn Evrópusambandsins er fyrir okkur má færa að því líkur að hann geti gengið verr ofan í þjóðríkin 27, sem hvert fyrir sig þurfa að blessa þá niðurstöðu. Ég ætla ekki að fara dýpra ofan í það atriði vegna þess að ég tel að menn hafi almennt gert allt of mikið úr möguleikum okkar til þess að ná frábærum samningi.

Ég tek miklu meira mark á þeim sem eru í Evrópuumræðunni að mæla fyrir umsókn og hafa sannfæringu fyrir því að við eigum að ganga inn á þeim forsendum að við eigum samleið með Evrópusambandinu, að kostirnir við fulla Evrópusambandsaðild vegi upp ókostina og gallana eins og Evrópusambandið blasir við, eins og stefna þess er. Ég tek miklu meira mark á þeim sem mæla fyrir Evrópusambandsaðild á þeim forsendum og tala fyrir því að við förum í umsóknarferlið en þeim sem segja að við eigum að fara í umsóknarferlið til þess eins að tékka á hvort við fáum ekki frábæran samning. Ég held að sá málflutningur sé ekki á eins traustum rökum reistur.

Í þessari þingsályktunartillögu er, eins og fram hefur komið í umræðunni, lagt til að utanríkismálanefnd felli málið í ákveðinn farveg. Þess vegna er þessi þingsályktunartillaga í raun og veru tillaga um ákveðna málsmeðferð. Menn hafa gagnrýnt hér að hún snúist ekki um það hvort við eigum að sækja um eða ekki, gott og vel, það stóð aldrei til að hún ætti að fjalla um það. Hérna hafa tveir þingflokkar komið sér saman um málsmeðferð vegna þess að ekki er boðið upp á hana í tillögu utanríkisráðherra, ég veit ekki hvort ég get kallað hana tillögu ríkisstjórnarinnar, a.m.k. er ekki fullur stuðningur við hana hjá öllum ráðherrum.

Það kemur í ljós að ýmis atriði hafa ekki verið hugsuð til fulls þegar maður fer að ræða þá tillögu. Þó að ég sé að tala um hina síðari er hún auðvitað til komin, eins og segir í greinargerð með henni, vegna hinnar fyrri. Það er t.d. þetta með samráðið sem átti að vera svo mikið við hagsmunaaðila eftir að þingið var búið að ákveða að fara í aðildarviðræður. Ég hef gagnrýnt það hér áður.

Ég vil nefna annað mál. Í stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra kom fram að hún hefði falið Seðlabankanum að leggja mat á kosti og galla þess að breyta umgerð peningastefnunnar á Íslandi en ekki bara það, heldur hafi hún líka óskað eftir því við Seðlabankann að hann skili áfangaskýrslu, þ.e. skýrslu um fyrirkomulag peningamála með hliðsjón af hugsanlegri aðild að Efnahags- og myntbandalagi Evrópu. Hefði nú ekki verið eðlilegt að einhver slík skýrsla fylgdi þessu þingmáli, þingmálinu um að ganga í Evrópusambandið og taka upp evruna í framhaldinu? Hefði ekki verið eðlilegt að einhver slík skýrsla, einhver slík samantekt, hefði verið grunnur að þeirri ákvörðun þar sem Seðlabankinn væri fyrir fram búinn að leggja mat á kosti þess að gangast undir sameiginlegu myntstefnuna á því svæði? Það hefði verið góður grundvöllur að þingmálinu en ekki þannig að það gerist eftir á.

Höfum þá í huga hvað er að gerast á evrusvæðinu í dag. Í Slóveníu, eftir að þeir tóku upp evruna, lækkaði til að mynda lánshæfismatið þar vegna þess að þeir voru búnir að gefa frá sér sveigjanleika sem þeir höfðu áður í sjálfstæðri mynt. Hvað er síðan að gerast í Svíþjóð, sem er fyrir utan evruna? Jú, Svíþjóð er með hæsta lánshæfismat allra Evrópusambandsríkjanna, m.a. á grundvelli þess að þeir eru með sjálfstæða mynt. Engu að síður er það lagt til í tillögu ríkisstjórnarinnar að við festum gengið nú þegar áður en grundvallarþættirnir í hagstjórninni hér hafa náð jafnvægi, áður en við höfum náð tökum á ríkisfjármálunum og hagstjórninni að öðru leyti. Ég held að í því atriði einu og sér felist gríðarlega mikill veikleiki í tillögu ríkisstjórnarinnar. Þess vegna leggjum við til í þeirri þingsályktunartillögu sem við teflum hér fram, þingflokkar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, að fjallað verði um gerð stöðugleikasamnings, og þá erum við auðvitað að tala um að rætt verði um kosti þess og galla að gangast undir stöðugleikasamning og festa gengið nú þegar við Evrópusambandið á þeim tímum sem svona mikið ójafnvægi er í íslenska þjóðarbúskapnum, gríðarlegt ójafnvægi, meira ójafnvægi en við höfum nokkru sinni áður, í langan tíma a.m.k., séð.

Við vitum öll hvaða afleiðingar slíkt gæti haft, þ.e. að við festum gengið. Það geta menn sagt okkur í þeim ríkjum þar sem atvinnuleysið er hvað mest í Evrópusambandinu í dag. Það er nákvæmlega þar sem menn munu taka á þessu. Í atvinnuleysinu munu menn þurfa að taka út afleiðingarnar af því að gera þetta of snemma.

Ég vil að lokum nota þann skamma tíma sem mér er úthlutaður til að benda á að það gengur ekki að menn setji hér fram mál af þessum toga án þess að hafa t.d. ígrundað það hvernig málið horfir við stjórnskipulegri stöðu gagnvart þinginu. Mér finnst ótrúlegt að hæstv. utanríkisráðherra geri sér ekki grein fyrir því að þingið hefur á endanum ekkert vald til þess að klára þennan samning. Því sjónarmiði hefur meira að segja verið hreyft við mig — þó að ég hafi kannski efasemdir um að það sé rétt — að málið sé ekki einu sinni þingtækt vegna þess að stjórnskipun gerir ekki ráð fyrir því að samning eins og þann sem hér er verið að óska eftir að ganga til viðræðna um sé hægt að staðfesta.

Í mínum huga mun röðin augljóslega verða þessi, verði gengið til aðildarviðræðna: Frá því að slíkur samningur klárast gerist þetta með þeim hætti að hingað inn koma tillögur um breytingar á stjórnarskránni og síðan verður þingi slitið. Eftir það kemur nýtt þing saman og staðfestir þær stjórnarskrárbreytingar. Fyrst eftir að nýja þingið hefur staðfest stjórnarskrárbreytingar kemur samningurinn sem utanríkisráðherra óskar eftir að fá að gera á dagskrá nýja þingsins til staðfestingar vegna þess að þá fyrst er komin stjórnskipuleg heimild til þess að staðfesta slíkan samning.

Ég sakna þess auðvitað líka þegar maður er að reifa svona augljós mál, þetta eru stóru málin í samhengi við þá tillögu sem hér er verið að bera undir þingið, að menn geri sér hvorki grein fyrir þessu né því hvernig eigi að virkja þjóðaratkvæðagreiðslu. Á hún bara að vera leiðbeinandi eða ætla menn að koma með tillögur um stjórnarskrárbreytingar sem gefa þjóðaratkvæðagreiðslunni þann status (Forseti hringir.) að geta verið til staðfestingar á lögum, vegna þess að þá þarf stjórnarskrárbreytingu til?