137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[14:49]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það var ekki stjórnarandstaðan sem tefldi fram tillögu til þingsályktunar um aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Nei. Það voru stjórnarflokkarnir, eða a.m.k. nokkrir ráðherrar í ríkisstjórninni. Kannski bara utanríkisráðherrann.

Þegar Samfylkingin og Vinstri grænir voru að koma sér saman um það þingmál, sem þeir á endanum gátu ekki gert, og fyrst ekki var samstaða um hvort ætti að fara í aðildarviðræður, þá var auðvitað heldur ekki nein samstaða um málsmeðferðina. Það er það sem birtist í þessu skjali. Það var engin samstaða um það milli Samfylkingar og Vinstri grænna yfir höfuð um neitt sem snertir þetta mál annað en að — fyrst þeir gátu ekki komið sér saman um það — best væri að leggja það bara fyrir þingið og sjá hvað mundi gerast. Þegar menn standa þannig að málum finnst mér nú býsna langt seilst í gagnrýninni þegar vinir þeirra í stjórnarandstöðunni koma fram og segja: Jæja, strákar mínir og stúlkur, það er svona sem nauðsynlegt er að standa að þessu.

Ef við erum að fara að taka ákvörðun af þessum toga þarf að eiga sér stað einhver lágmarksundirbúningur, vegna þess að tillaga ríkisstjórnarinnar gekk einmitt út á það, eða tillaga hæstv. utanríkisráðherra, að fara bara í aðildarviðræður. Það hefur komið fram bæði í máli hans og annarra, að það átti að drífa í þessu núna strax um mánaðamótin júní/júlí. Ekki að undangengnu mati á þeim hagsmunum sem átti að verja. Ekki átti að kynna það fyrir þinginu. Ekki átti að kynna áhrifin af því að gangast undir sameiginlegu myntstefnuna fyrir þinginu. Nei. Það var bara mál sem var í sjálfstæðum farvegi á milli ríkisstjórnar og Seðlabankans. Enginn sérstakur undirbúningur átti að eiga sér stað. Það átti bara að knýja fram á grundvelli yfirlýsingar frá einstökum þingmönnum um að þeir væru nú hlynntir því að skoða möguleikana (Forseti hringir.) á að fara í aðildarviðræður, jáið við því að leggja bara strax af stað.