137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[14:53]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er allt hárrétt hjá hv. þingmanni. Stjórnarandstaðan getur farið fram á breytingar á þingmáli sem hér liggur fyrir. Hún getur líka bara ákveðið að tefla fram þingmáli. Það er akkúrat það sem hún gerði. Ég vænti þess að hv. þingmaður sé alveg eins sáttur við það eins og hún hefði farið fram á einhverjar breytingar á hinu málinu.

Munurinn á þessum málum er sá að annað fjallar um að leggja fram umsókn um Evrópusambandsaðild en hitt um undirbúning þess að slík ákvörðun verði tekin á þinginu. Mér sýnist því á öllu að við séum á endanum sammála, nema þá kannski um eitt, sem hv. þingmaður vísaði til og kemur fram í þingsályktunartillögu hæstv. utanríkisráðherra um að að loknum samningi skuli fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla. Getur hv. þingmaður útskýrt fyrir mér um hvað sú þjóðaratkvæðagreiðsla á að vera? Varla til staðfestingar á samningnum. Ekki er hægt að ætlast til þess af þjóðinni að hún fari að staðfesta samninginn áður en við breytum stjórnarskránni? Það eru engar heimildir í stjórnarskránni til þess að vísa því til þjóðarinnar að staðfesta lög eða alþjóðlega samninga.

Ég átta mig ekki á því hvað átt er við með því í þingsályktunartillögu ríkisstjórnarinnar þar sem talað er um að fram skuli fara þjóðaratkvæðagreiðsla eftir að samningurinn er gerður. Getur hv. þingmaður útskýrt fyrir mér um hvað sú þjóðaratkvæðagreiðsla á eiginlega að snúast?