137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[14:55]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við áttum nokkur orðaskipti um þjóðaratkvæðagreiðslumálið í umræðum í gær, ég og hv. þm. Illugi Gunnarsson, þar sem við veltum vöngum einmitt um hvað svona þjóðaratkvæðagreiðsla á að snúast um og hvernig hún færi fram. Ég tel að þetta sé atriði sem við förum betur yfir. Við höfum ekki tíma til þess í stuttum andsvörum að ræða það til þrautar hvernig með þau mál eigi að fara.

Því var lýst yfir af hálfu ríkisstjórnarinnar að hún hygðist leggja fram stjórnarfrumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur sem myndaði ákveðinn ramma um þjóðaratkvæðagreiðslur almennt séð. Ég upplýsti það og vísaði til þess að í Noregi á sínum tíma voru sett sérstök lög um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarsamninginn eftir að aðildarsamningurinn lá fyrir. Þá tók norska þingið hann til umfjöllunar. Setti síðan lög um þjóðaratkvæðagreiðsluna um samninginn þar sem spurningin í þjóðaratkvæðagreiðslunni var njörvuð niður í lagatextann og þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram sjö mánuðum síðar. Þetta var ferlið sem þar var viðhaft og mér finnst að við getum skoðað það hvernig aðrir hafa staðið að þessum málum í öðrum löndum.

Hvað stjórnarskrána varðar tel ég, eins og hæstv. utanríkisráðherra nefndi, að eðlilegt sé að við förum yfir það með sérfræðingum í stjórnskipunarrétti vegna þess að greinilega eru ekki allir á einu máli um hvernig málið ber að þjóðinni eða þinginu gagnvart stjórnarskránni. Ég hefði haft tilhneigingu til að halda að fyrst ætti að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem þjóðin ákveddi hvort hún vildi aðild að Evrópusambandinu eða ekki á grundvelli þess samnings sem fyrir liggur.

Aðeins ef þjóðin segir já er tilefni til þess að gera stjórnskipulegar breytingar eða breytingar á stjórnarskránni hvað þetta varðar. (BjarnB: En ef þingið gerir það ekki?) Þetta eru mín fyrstu viðbrögð. En ég sagði það líka í gær í umræðunni um málið að ég hefði ekki kafað ofan í saumana á þessu stjórnskipunarmáli og mér finnst eðlilegt að við förum ofan í það á vettvangi hv. utanríkismálanefndar og fáum til okkar fróða sérfræðinga í þessu efni. Ég ætla ekki að kveða neitt upp úr með það á þessu stigi. Þetta (Forseti hringir.) eru aðeins mín fyrstu viðbrögð og ég vísa til þess hvernig menn stóðu að málinu í Noregi. (IllG: Samt ætlarðu utanríkisráðherra að hlaupa af stað.)