137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[14:59]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það var nú einhver með þessa samlíkingu með húsakaupin í gær við umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Ég sagði þá, ég man ekki hvort það var þessi hv. sami þingmaður eða einhver annar, að ég kynni ekki alveg við þá samlíkingu, að það að sækja um aðild að Evrópusambandinu og fara í það ferli sem því viðvíkur og bera síðan niðurstöðuna undir þjóðaratkvæðagreiðslu væri sambærilegt við ákvörðun fólks um að kaupa sér hús. En látum það liggja á milli hluta. Það skiptir engu máli í þessu samhengi.

Tillaga stjórnarandstöðuflokkanna beggja gengur út á það að undirbúa ákvörðun, þessa sömu ákvörðun og tillaga stjórnarinnar gengur út á, segir hv. þingmaður. Já, gott og vel. Það þýðir að báðar tillögurnar ganga samt í þessa sömu átt. Kannski í aðeins mismunandi skrefum en því fer víðs fjarri að hægt sé að skilja málið þannig að önnur fari í austur en hin í vestur. Það er ekki. Þær ganga báðar í sömu átt, hugsanlega með aðeins öðruvísi göngulagi en í sömu átt ganga þær.

Þess vegna höfum við viðhaft þann málflutning, fulltrúar stjórnarflokkanna, að það eigi að vera unnt að flétta þessar tillögur saman með vandaðri vinnu á vettvangi þingnefndarinnar með því að fá þau gögn, þær upplýsingar sem kallað er eftir í tillögum stjórnarandstöðuflokkanna, gera um það greinargerð sem gæti komið fram í nefndaráliti og fléttað þannig inn þau skref sem stjórnarandstöðuflokkarnir tveir leggja til inn í textann í tillögu stjórnarflokkanna.

Ég tel því að engin ástæða sé til að óttast að það sé ekki hægt ef viljinn er fyrir hendi. En ég ítreka það sem ég sagði áðan að það er alveg ljóst að ef viljann skortir þá verður auðvitað ekki farið langt. En ég vænti þess að sá vilji sé raunverulegur og hann sé til staðar. Við höfum lýst honum yfir, ég fyrir mína hönd sem formaður utanríkismálanefndar, (Forseti hringir.) hæstv. utanríkisráðherra hefur einnig gert það og ég vænti þess svo sannarlega að þessi vilji sé til staðar.