137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[15:29]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hérna er að ljúka merkilegri umræðu að mínu mati sem fróðlegt hefur verið að fylgjast með núna í dag og í gær. Þetta eru sögulegir dagar á Alþingi Íslendinga fyrir þær sakir að hér er, eins og kom fram í máli margra, um að ræða eitt stærsta og brýnasta hagsmunamál Íslendinga. Menn geta verið með því eða á móti en þetta er örugglega eitt af okkar stærri og afdrifaríkari málum.

Ég hef verið á þeirri skoðun í mörg ár að við ættum að sækja um aðild að Evrópusambandinu og fara með slíkan samning í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sá söngur að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið væri nægjanleg eða fullnægjandi tenging við þennan 500 milljóna manna markað er að mínu mati blekking. Við skutum þessu stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar ítrekað á frest í því skjóli. Það reyndist rangt, hefur komið mjög afgerandi fram og það stendur upp á Alþingi Íslendinga að leiða þetta mál til lykta. Það er sérstakt fagnaðarefni að sú ríkisstjórn sem núna situr hafi sjálfstraust til að skjóta þessu stóra máli til þings og þaðan til þjóðar. Það er að öðru leyti nokkuð söguleg málsmeðferð, sem er líka sérstakt ánægjuefni í sjálfu sér, að dýrkeypt bið eftir því að mál þetta sé raunverulega tekið á dagskrá, er á enda.

Tillagan sem við ræðum núna, þingsályktunartillaga stjórnarandstöðuflokkanna tveggja, er alveg prýðileg tillaga. Ég tek undir með þeim sem hafa talað um hana í dag og ég get tekið undir hana í öllum aðalatriðum. Menn geta rætt um það hvort málinu þurfi að ljúka í júní, júlí eða ágúst en í öllum aðalatriðum tek ég undir þá tillögu og fagna henni mjög. Mér þykir hún skynsamlegt innlegg stjórnarandstöðunnar til málsins þó að hún sé að sjálfsögðu samnefnari ólíkrar stefnu þessara tveggja flokka í málinu. Framsóknarflokkurinn hefur þá afdráttarlausu stefnu, ég vona að það verði leiðrétt af formanni flokksins ef það er ekki rétt — sem hér hefur yfirgefið salinn, að sinni alla vega — að flokkurinn vill sækja um aðild að Evrópusambandinu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Það liggur alveg skýrt fyrir. Það vill Sjálfstæðisflokkurinn ekki en þeir sameinast um þessa tillögu hér sem er tillaga um málsmeðferð.

Á henni og tillögu ríkisstjórnarflokkanna tveggja er að mínu mati óverulegur munur. Þær falla að mínu mati, eins og hæstv. utanríkisráðherra nefndi áðan, vel saman með tiltölulega litlum breytingum. Þess vegna studdi ég það mjög eindregið í gær á fundi þingflokksformanna með forseta að þessi tillaga yrði rædd hér í dag, strax í kjölfar tillögu ríkisstjórnarflokkanna. Þær færu saman til nefndar þar sem, eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, nefndi í dag, þær yrðu samþættar og samofnar. Eftir ítarlega og vandvirknislega vinnu frá utanríkismálanefnd kæmi öflug tillaga sem er þeirrar náttúru að um hana sé hægt að ná breiðri samstöðu um að sækja um aðild að Evrópusambandinu að tilteknum skilyrðum uppfylltum og með ákveðnum bakgrunni og á grundvelli tiltekinnar málsmeðferðar, sem umræðan hér í tvo daga hefur að miklu leyti snúist um eðlilega. Rík og öflug samstaða verði um það að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Eins og hæstv. utanríkisráðherra nefndi líka áðan skiptir það auðvitað miklu máli fyrir þetta stóra mál að stór hluti Alþingis sé á bak við þá tillögu.

Eins og ég nefndi er óverulegur munur á þessum tveimur tillögum. Það er auðvelt að mínu mati og hægur leikur í nefndinni að komast að niðurstöðu um málsmeðferð af því að að fram kominni þessari tillögu stjórnarandstöðuflokkanna er samhljómur um að stefna skuli að því að sækja um aðild að Evrópusambandinu þó að margir þingmenn hafi að sjálfsögðu aðra skoðun. Það er talsverður munur á nálgun flokkanna í málinu en ef marka má umræðuna í dag og þessar tvær mjög svo líku tillögur er að skapast um það breið samstaða að sækja um aðild að sambandinu. Hér er rætt nokkuð ítarlega um málsmeðferð — og fyrst formaður Framsóknar er mættur aftur ætla ég að ítreka það að ég tel að það standi mjög lítið á milli þessara tveggja tillagna. Ég tel að þær falli saman með litlum breytingum og ég held að það verði hægur leikur í nefndinni að fella þær nokkuð vel saman. Ég tel að Alþingi sé að ná mjög góðri samstöðu um málsmeðferðina og það er að sjálfsögðu sérstakt fagnaðarefni. Þess vegna var það ánægjulegt að það tókst að ræða þessa tillögu beint í kjölfar hinnar tillögunnar og senda þær saman til nefndar þar sem utanríkismálanefnd vinnur úr þeim, af því að við erum að hefja vegferðina hér. Við eigum eftir að ræða um efni máls oft og lengi innan nefndarinnar og í þinginu en þar skiptir mestu að ná breiðri samstöðu um málið strax á upphafsreitnum. Til þess er leikurinn gerður, til þess eru refirnir skornir og það er sá samnefnari sem við erum að ná saman.

Eins og ég nefndi áðan, hv. formaður Framsóknar, er tillaga stjórnarandstöðuflokkanna tveggja — sem ég tel mjög góða og vandaða tillögu, og styð hana í öllum aðalatriðum og fagna henni alveg sérstaklega, tel að þessar tvær tillögur falli mjög vel saman — að sjálfsögðu um leið samnefnari ólíkra stefna tveggja flokka af því að annar flokkurinn, Framsóknarflokkurinn, hefur þá skoðun afdráttarlaust og stefnu frá flokksþingi sínu frá því í febrúar, að sækja beri um aðild að Evrópusambandinu að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Ég tek undir þau meira og minna öll líka og er mjög hlynntur stefnumörkun Framsóknar í málinu. Sjálfstæðisflokkur hefur hins vegar ekki þá stefnu að sækja beri um aðild. Þannig ná þessir tveir flokkar saman alveg eins og ríkisstjórnarflokkarnir tveir ná saman í sinni tillögu. Svo geta menn rætt um það hvernig er hægt að ná fram sem ítarlegastri og bestri málsmeðferð og það mun okkur alveg örugglega takast, sérstaklega ef marka má umræðurnar hérna í þinginu í dag.

Með þessum hætti er stærsta einstaka hagsmunamáli þjóðarinnar vísað til þingsins og þjóðarinnar til úrlausnar. Það er að mínu mati besta, sanngjarnasta og lýðræðislegasta leiðin til að leiða þetta mál til lykta. Við höfum deilt um það árum saman hvað við gætum fengið út úr aðild og hvað það kostar okkur að standa utan. Við munum aldrei komast að niðurstöðu í þeirri umræðu fyrr en við sækjum um aðild og förum síðan með þann samning í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ýmislegt hafa menn nefnt, t.d. hvort þessi tillaga núna eftir undangengin áföll skipti máli, hvort hún leysi allar okkar þrautir og hvort hún sé patentlausn á núverandi ástandi. Að sjálfsögðu ekki. En að mínu mati styrkir hún mjög verulega stöðu Íslendinga. Hún mundi bæta stöðu okkar til að vinna okkur út úr áföllunum, hún mundi styrkja stöðu þjóðarinnar á erlendum vettvangi, fyrirtækjanna til að afla sér lánsfjár o.s.frv. Þannig mætti svo sem rekja áfram.

Við höfum rætt um það hvað hækki og lækki höfuðstól lána. Ekkert hefur meiri áhrif á vísitöluna og gengi höfuðstóls verðtryggðra lána en gengi íslensku krónunnar. Allt sem styrkir hana og styrkir stöðu hennar lækkar höfuðstól lánanna meira en nokkuð annað. Ég held því að þessi tillaga skipti gríðarlega miklu máli bæði í bráð og lengd. En mestu skiptir að þetta stóra mál er komið fram. Lítið hefur verið deilt eða rætt um það hér á þinginu þessa tvo daga hvort ætti að sækja um aðild heldur með hvaða hætti eigi að vinna málið. Þessar tillögur munu falla vel saman, ég er sannfærður um það.

Ákveðnir hlutir standa út af þegar kemur að samningagerðinni sjálfri. Við munum að sjálfsögðu fara inn í harðsnúið samningaferli um okkar ýtrustu hagsmunamál, yfirráð yfir auðlindunum til lands og sjávar, varðstöðu um landbúnaðinn og fjöldamargt annað mætti þannig tína til. Ísland hefur sérstöðu. Við munum örugglega vera í stöðu til að ná ágætum samningi, það kemur ekki í ljós fyrr en síðar.

Það er eðlilegt að þorri þjóðarinnar sé óviss um það hvort hagsmunum okkar sé betur borgið innan en utan sambandsins, en góður meiri hluti virðist lengi hafa verið á þeirri skoðun að sækja beri um aðild að sambandinu og sjá hvað við fáum út úr slíkum viðræðum. Ég tel að við munum geta náð ásættanlegum samningi sem hvetur allt okkar efnahags- og mannlíf til að eflast og styrkjast. Mestu skiptir möguleikinn um aðgang að stóru myntsvæði. Fjármagns- og vaxtakostnaður mundi minnka um tugi milljarða á ári, eins og utanríkisráðherra kom inn á í ræðu sinni í gær, og ekki þarf að tíunda lífskjarabæturnar fyrir almenning og öryggis- og velferðarmálin fyrir bæði fjölskyldur og fyrirtæki í landinu ef við sæjum á bak djúpum gengissveiflum, háum vöxtum, viðvarandi hærri en á evrusvæðinu, og verðtryggingu sem mundi heyra sögunni til. Efni máls eigum við eftir að ræða síðar. Málsmeðferðin er að nálgast samstöðu í þinginu og því fagna ég sérstaklega.