137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[15:41]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þessar spurningar og tek undir það að ég held að okkar pólitísku og efnahagslegu bandamenn sé að finna í Evrópu, sérstaklega af því að við erum eins og flestir vita með nokkurs konar aukaaðild að Evrópusambandinu í gegnum EES-samninginn þó að það hafi reynst veikari stoð en efni stóðu til.

Það er ekkert í tillögu stjórnarandstöðuflokkanna tveggja sem ég get ekki fellt mig við. Hún er bara ekki eins afdráttarlaus og gengur ekki eins langt og tillaga okkar um að sótt verði um aðild eftir vinnu í utanríkismálanefnd. Ég get í sjálfu sér fellt mig við meira og minna allt í henni.

Hvernig þjóðaratkvæðagreiðslan muni fara fram og líta út hlýtur að vera hlutverk utanríkismálanefndar að útfæra. Einhvers konar niðurstaða samnings verður borin undir já og nei til þjóðar eftir allan þann feril líkt og hefur verið gert í Noregi og þeim löndum þar sem málin hafa verið leidd til lykta með þeim hætti.