137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[15:46]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í morgun fór ég í gegnum öll þessi mál, vextina, verðtrygginguna og evruna. Við tökum ekki upp evru fyrr en í fyrsta lagi eftir sjö ár, sumir segja 30 ár. Þetta eru allt saman tóm loforð, allt. En munurinn á þessum tveim tillögum felst í niðurlagi tillögu stjórnarandstöðunnar sem segir, með leyfi frú forseta:

„Þegar niðurstaða utanríkismálanefndar liggur fyrir er gert ráð fyrir að Alþingi ákveði næstu skref, þ.e. hvort gengið skuli til aðildarviðræðna við Evrópusambandið …“ — Hvort gengið skuli.

Menn geta líka hætt við. Það getur verið að Borgarahreyfingin segi: Við skulum snúa okkur að fyrirtækjunum og fjölskyldunum. Það getur verið að Sjálfstæðisflokkurinn segi: Það borgar sig ekki að fara inn. Síðan segir:

„… eða eftir atvikum hvort ákvörðun þar um skuli borin undir þjóðina í atkvæðagreiðslu.“

Það er að segja ákvörðun um það hvort menn vilji yfirleitt ganga í þetta hernaðarbandalag og viðskiptabandalag sem er heimóttarleg stefna vegna þess að það útilokar okkur frá alþjóðasamstarfi.