137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[15:50]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef séð þetta þannig fyrir mér að málsmeðferðin verði með þeim hætti að samþykki Alþingi að sótt verði um aðild að sambandinu færi af stað ferli sem gæti væntanlega tekið á bilinu 2–3 ár að ganga til enda. Þá lægi fyrir samningur sem stæði upp á okkur að fara með í þjóðaratkvæðagreiðslu, þá væri væntanlega búið að vinna frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur og ljúka því máli og leiða það til lykta. Við vitum öll að það kallar á stjórnarskrárbreytingar, þingrof og aðrar kosningar. Nákvæmlega á hvaða tímapunkti við færum með samninginn fyrir þjóðina, það er sjálfsagt eðlilegast að það sé gert um leið og samningurinn liggur fyrir og ef hann er samþykktur þá liggur fyrir þörfin á því hvort breyta þurfi stjórnarskrá eða ekki til að einfalda ferlið. Við erum að tala um ferli sem tekur væntanlega 2–3 ár og síðan, áður en stjórnarskrárbreyting gengur í gegn og samningurinn tekur að fullu gildi, þarf að rjúfa þing og kjósa aftur. Ég sé þetta fyrir mér einhvern veginn með þeim hætti.