137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[15:51]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Sú málsmeðferð sem hér er lýst mundi í raun og veru þýða að það væri bara einhvers konar skoðanakönnun sem færi fram meðal þjóðarinnar, þ.e. ef hún yrði spurð, en það væri ekki endanlegt svar eða bindandi svar af hennar hálfu hver niðurstaðan væri vegna þess að í framhaldi af þessari þjóðaratkvæðagreiðslu, sem væri ekkert annað en skoðanakönnun, þyrfti að fara í aðra kosningu sem sneri að því að breyta stjórnarskránni og ef menn ætla síðan að komast að einhverri endanlegri niðurstöðu þarf að staðfesta það á þingi og þingmenn eru, enn og aftur, bundnir sannfæringu sinni. Og þar með stæðu þeir jafnvel í þeirri stöðu, við skulum taka sem dæmi að það hafi verið mjög mjótt á mununum í þjóðaratkvæðagreiðslunni og ekki mikil þátttaka, að vera áfram bundnir sannfæringu sinni í salnum, ekki slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu eða skoðanakönnun eins og hv. þingmaður lýsti hér. Ég ítreka að þetta er dæmi um það hversu mikilvægt það er að áður en Alþingi samþykkir að fara af stað og hleypa hæstv. utanríkisráðherra til Brussel (Forseti hringir.) til að reyna að semja, þurfum við að vera búin að teikna það út nákvæmlega hvernig við ætlum að standa að þessum málum. Annað kallar voðann heim.