137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[15:53]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég sé ástæðu til að ítreka eina ferðina enn að tillaga stjórnarandstöðunnar snýst ekki um það hvort sótt verði um aðild að Evrópusambandinu heldur um málsmeðferðina fram að því. En ég skil vel taktíkina hjá hæstv. utanríkisráðherra og öðrum sem hafa kynnt þetta þannig og hún er hreint ekki vitlaus og miklu sniðugri en það sem nokkrir aðrir þreifuðu fyrir sér með, tafaumræðan sem dó sem betur fer.

Ég spyr þá bara mjög einfaldrar spurningar: Í ljós þess sem hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar hafa sagt um þessa tillögu, að hún geti orðið vegvísir að vinnu utanríkismálanefndar, er þá eitthvað því til fyrirstöðu að þingið einfaldlega staðfesti að svo sé og samþykki tillöguna, hugsanlega með dálitlum breytingum eftir umræður, og er ekki sjálfsagt mál að Alþingi Íslendinga staðfesti að þetta sé aðferðin sem við ætlum að nota við þessa vinnu?