137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[15:55]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vildi líka nota tækifærið til að endurtaka spurninguna sem ég lagði fyrir hv. formann áðan í ræðu minni: Er það ekki örugglega rétt að tillaga stjórnarandstöðuflokkanna er samnefnari á milli tveggja mjög ólíkra stefna þar sem annars vegar Framsóknarflokkurinn hefur þá afdráttarlausu skoðun að sækja eigi um aðild? Þetta þarf hann að staðfesta hér.

Hvað varðar vegvísinn að vinnunni. Jú, þetta er svo sannarlega mjög gott upplegg að vegvísi í vinnuna. Það er engin taktík að fagna tillögunni og taka undir hana og styðja hana, það er einfaldlega skoðun mín, skoðun utanríkisráðherra að þetta sé mjög góð og vönduð tillaga og til þess gerð að verða grunnur að öflugum vegvísi að vinnubrögðunum sem þarf að viðhafa í þessu ferli öllu saman. Ég ítreka einfaldlega aftur að hér er um að ræða mjög heppilegt upplegg í málsmeðferð þar sem utanríkismálanefnd mun örugglega finna bestu leiðina og að koma frá sér til þingsins í hvaða formi við göngum til atkvæða, þingið, um þá vinnu síðar í sumar.