137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

fjármálafyrirtæki.

33. mál
[16:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti meiri hluta hv. viðskiptanefndar sem er að finna á þskj. 77, en auk þeirrar sem hér stendur rita undir álit þetta hv. þingmenn Magnús Orri Schram, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Eygló Harðardóttir, Lilja Mósesdóttir og Jónína Rós Guðmundsdóttir.

Viðskiptanefnd hefur í dag haldið tvo fundi og fékk til sín eftirtalda gesti: Kristin Bjarnason, aðstoðarmann Landsbanka Íslands í greiðslustöðvun og stjórnarmann í slitastjórn bankans, Jón Ármann Guðjónsson frá skilanefnd Sparisjóðabankans, Ragnar Þ. Jónasson frá skilanefnd Straums Burðaráss, Ragnar Hall frá slitastjórn Straums Burðaráss, Áslaugu Árnadóttur og Jónínu S. Lárusdóttur, frá viðskiptaráðuneyti, og Gylfa Magnússon viðskiptaráðherra. Þá bárust nefndinni frá síðasta fundi sem var í gær umsagnir og upplýsingar frá fjórum aðilum til viðbótar, þ.e. frá skilanefnd Straums, frá lögmannsstofunni BBA-Legal, skilanefnd Sparisjóðabankans og skilanefnd Kaupþings.

Eins og fram kom í stuttri umræðu sem var hér í gærkvöldi þá töldu allir nefndarmenn í hv. viðskiptanefnd nauðsynlegt að nefndin fjallaði enn og aftur um þetta mál í dag og eins og ég nefndi áðan þá var það gert á tveimur fundum, fyrst í morgun og síðan í hádegishléi. Ég tel að það hafi tekist að fara vandlega yfir málið þó að ekki hafi verið nema þrír sólarhringar til ráðstöfunar, en nefndin hélt sex fundi, fékk tólf gesti og ein tíu álit auk minnisblaða frá ráðuneyti.

Um hvað snýst þetta mál, hv. þingmenn? Hinn 22. apríl síðastliðinn tók gildi allvíðtæk breyting á lögum um slit fjármálafyrirtækja þar sem lagður var upp rammi til framtíðar ef fjármálafyrirtækin okkar mundu nú enn eiga eftir að fara á hausinn. Þarna var lagður upp rammi og ferli sem byggðist beint á lögum um gjaldþrotaskipti. Í þessari lagasetningu var einnig greiðslustöðvun þeirra fjármálafyrirtækja sem hrundu síðastliðið haust og í vetur sett í nýjan farveg þannig að eiginlegt slitaferli þeirra fyrirtækja hófst við gildistöku laganna, sem var 22. apríl síðastliðinn og sérstakri slitastjórn sem héraðsdómur tilnefnir er falið að innkalla kröfur og í framhaldinu meta rétthæð þeirra og boða kröfuhafa til fundar eftir lok innköllunarfrests. Allt byggir þetta í grófum dráttum á lögum um gjaldþrotaskipti.

Enda þótt ferli þetta varðandi gömlu bankana, bráðabirgðaákvæði þessara laga, sé áfram kennt við greiðslustöðvun og skilanefndum áfram falið að reka búin með sem hagkvæmustum hætti þá var með lögunum tekinn úr sambandi IV. kafli gjaldþrotaskiptalaganna en í honum er að finna heimildir meðal annars til þess að greiða kröfur á greiðslustöðvunartímanum. Skilanefndir bankanna ráku sig því fljótlega eftir gildistöku laganna á það að þeim var ekki lengur heimilt að halda áfram að greiða fyrrverandi starfsmönnum laun í uppsagnarfresti enda þótt sýnt væri að viðkomandi fjármálafyrirtæki gætu greitt allar forgangskröfur og óskuðu því eðlilega eftir atbeina viðskiptaráðuneytisins til þess að breyta þeirri stöðu. Jafnframt var sýnt eftir gildistöku laganna að ekki mundi að óbreyttu heimilt að standa skil á samningum Kaupþings við innlánseigendur í Þýskalandi — Kaupthing Edge — en þar er um að ræða 300 milljóna evra skuld sem er eitthvað milli 50 og 60 milljarðar kr.

Ég vil taka fram að þær kröfur sem ég hef hér nefnt, annars vegar launakröfur á uppsagnarfresti og hins vegar innlánskröfurnar — ég vil taka fram að innlánskröfurnar í Þýskalandi eru samkvæmt 6. gr. neyðarlaganna forgangskröfur — eru forgangskröfur og Kaupþing hefur þegar greitt aðrar innstæður í útibúum sínum víða um heim á þeim grunni, á 6. gr. neyðarlaganna nr. 125/2008. Launakröfur á uppsagnarfresti eru einnig forgangskröfur. Þetta eru þær forsendur fyrir breytingum sem ráðuneytið lagði fram og teknar voru á dagskrá hér á þriðjudaginn var með afbrigðum.

En viðskiptanefndarmenn töldu brýnt, samanber nefndarálit sem dreift var hér í gær á þskj. 55, að hafa þessa heimild eins þrönga og mögulegt væri eða eins og þar segir, með leyfi forseta:

„... að brýnt væri að takmarka gildissvið þess [þ.e. frumvarpsins] við skuldir vegna launa í uppsagnarfresti og vegna innlána sem veittur var forgangsréttur samkvæmt svonefndum neyðarlögum, nr. 125/2008.“

Nefndin taldi mjög brýnt að sem minnst væri hreyft við þessu ferli og að meginreglan eigi að vera að greiðslur fari ekki fram fyrr en fyrir liggur hverjir séu kröfuhafar og hvaða stöðu þeir hafa í kröfuröðinni. En hér erum við auðvitað að gera undantekningu á því.

Um þessar brýnu forsendur, annars vegar að starfsmenn fái áfram laun í uppsagnarfresti um þessi mánaðamót og næstu tvenn mánaðamót og að innstæðueigendur í Þýskalandi fái forgangskröfur sínar greiddar, fjölluðum við aftur um í morgun vegna þess að efasemdir voru uppi um að ákvæðið svo breytt dygði til þess að heimila skilanefndunum að greiða full laun. Niðurstaða meiri hluta nefndarinnar að því leyti er sú að veita skilanefndunum umbeðna lagaheimild. En það verður að segjast eins og er að eftir sem áður fer það auðvitað eftir stöðu búanna í hverju tilfelli fyrir sig og er háð mati skilanefndanna á því hvort búin eigi fyrir forgangskröfum að öllu leyti eða að hluta og þá auðvitað ræður það hvort og þá hversu mikið er greitt af laununum.

Það hefur verið til umræðu að innköllunarfrestur í stóru gömlu bönkunum er einir sex mánuðir og að ekki komi til útgreiðslu krafna þar fyrr en í fyrsta lagi í lok nóvember næstkomandi. En í þeim fjármálafyrirtækjum sem hér um ræðir og enn eru að greiða flestum laun í uppsagnarfresti er aðeins um tveggja mánaða innköllunarfrest að ræða. Það er því sýnt að óvissuástandi, ef það skapast eftir gildistöku þessara laga, verði aflétt ekki síðar en í lok ágúst.

Frú forseti. Á framhaldnefndaráliti á þskj. 77 er að finna breytingu sem meiri hluti nefndarinnar leggur til eins og þar segir, en í breytingunni felst að það er tiltekið mjög skýrt til hvaða tímabils þessi heimild nær, þ.e. að þrátt fyrir ákvæði 6. mgr. 102. gr. laganna sé skilanefndinni heimilt, og hér kemur viðbótin, með leyfi forseta:

„... á tímabilinu frá gildistöku laga þessara og þar til skilyrði eru fyrir efndum krafna á grundvelli 6. mgr. 102. gr., að greiða skuldir vegna launa, þ.m.t. laun í uppsagnarfresti, og vegna innlána sem veittur var forgangsréttur með 6. gr. laga nr. 125/2008, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um fjármálafyrirtæki, ef víst er að nægilegt fé sé til að greiða að fullu eða í jöfnu hlutfalli [þ.e. pro rata] kröfur sem gætu notið sömu eða hærri stöðu í skuldaröð.“

Frú forseti. Ég tel að með þeim breytingum og þeim þrengingum sem hér er gerð tillaga um sé komið til móts við þá brýnu þörf sem leiddi til þess að hæstv. viðskiptaráðherra lagði þetta mál hér fyrir, annars vegar að tryggja að laun geti verið greidd út um þessi mánaðamót og tvenn næstu í tilteknum fjármálafyrirtækjum — það er málefni sem snertir um 200 starfsmenn — og hins vegar að hægt sé að standa við gerða samninga og yfirlýsingar um útgreiðslu á forgangskröfum í Kaupthing Edge í Þýskalandi.