137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

staðan í Icesave-deilunni.

[13:35]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Eins og þingmönnum er kunnugt var afgreidd ályktun um það á þingi þar sem stjórnvöldum var falið það verkefni að ræða við bresk og hollensk stjórnvöld um lyktir þessarar deilu og síðan hefur með reglubundnum hætti verið skýrt frá því hvað aðhafst hefur verið í þeim efnum og m.a. utanríkismálanefnd verið haldið upplýstri um það. Viðræður eða þreifingar milli aðila hafa gengið hægar en ætlunin var, m.a. vegna þess að Bretar hafa ítrekað óskað eftir frestun á fundum sem fyrirhugaðir voru. Það er verið að reyna að koma í gang formlegum samningaviðræðum en þær eru ekki hafnar heldur eru könnunarþreifingar eða könnunarviðræður í gangi. Ég held að ég geti fullvissað hv. þingmann um að það standi ekki til að ganga frá einhverju samkomulagi á morgun eða einhverja næstu daga og áður en til slíks kæmi yrði að sjálfsögðu haft samráð við utanríkismálanefnd og aðra þá aðila sem þingið hefur haft til að fylgjast með framvindu þessara mála. Staða málsins er sú að það eru könnunarviðræður eða könnunarþreifingar í gangi.