137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

erindi utanríkisráðherra til Möltu.

[13:43]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í gær bárust fréttir af því að hæstv. utanríkisráðherra væri staddur á Möltu í viðræðum við þarlenda um málefni sem tengjast aðild Íslands að Evrópusambandinu eftir því sem ráða mátti af fréttaflutningi. Í ljósi þess að málefni af því tagi eru afar mikilvæg um þessar mundir og jafnframt viðkvæm vildi ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra, sem leiðtoga annars stjórnarflokksins og annan af helstu ábyrgðarmönnum ríkisstjórnarinnar, hvert nákvæmlega var erindi hæstv. utanríkisráðherra til Möltu? Var hann þar, eins og kom fram í einhverjum fréttatímum, að leita stuðnings við aðild Íslands að Evrópusambandinu og ef svo er, í hvers umboði var hann í þeim erindagerðum? Eftir því sem mér skilst hefur Alþingi Íslendinga ekki falið honum slíkt verkefni og þá er spurningin hvort ríkisstjórn Íslands er á bak við þann erindrekstur hæstv. utanríkisráðherra.