137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

erindi utanríkisráðherra til Möltu.

[13:48]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Hv. þingmaður verður náttúrlega að hafa í huga að hæstv. utanríkisráðherra er utanríkisráðherra. Það er náttúrlega ekki venjan að utanríkisráðherrar almennt þurfi að bera verkefni á sínu verksviði undir samráðherra sína eða þess vegna Alþingi frekar en ráðherrar þurfa yfirleitt að gera, samanber hina margtuggnu klisju að ríkisstjórn er ekki fjölskipað stjórnvald og ráðherra er ábyrgur á sínu sviði fyrir sínum málaflokki og á það við sjálfan sig í hvaða mæli hann upplýsir samráðherra sína um hluti eins og t.d. það hvert hann hyggst ferðast eða hvert hann á erindi hverju sinni.

Ég held að við hljótum að treysta hæstv. utanríkisráðherra til að fara þarna vel og gætilega með vald sitt og kunna orðum sínum stað eins og hann er þekktur fyrir af sinni hógværð. Ég hef engar áhyggjur af því að þessi ferð hæstv. utanríkisráðherra verði til annars en gagns og honum vonandi til gleði.