137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

flutningskostnaður á landsbyggðinni.

22. mál
[14:35]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég vil í upphafi máls míns óska hæstv. ráðherra Gylfa Magnússyni alls velfarnaðar í vandasömum störfum. Það veitir ekki af að búa vel að embætti viðskiptaráðuneytisins og ég fagna því að það eigi að styrkja það með öllum tiltækum ráðum nú.

En það sem ég vildi spyrja hæstv. ráðherra út í er flutningskostnaður á landsbyggðinni. Í síðustu viku ræddum við þingmenn hér á vettvangi Alþingis um húshitunarkostnað á landsbyggðinni. Um 9% heimila í landinu greiða umtalsvert hærri húshitunarreikninga en aðrir landsmenn og fólk á þessum svæðum þarf jafnframt að greiða og búa við himinháan flutningskostnað sem hefur hamlað vexti viðkomandi byggðarlaga og í raun og veru komið í veg fyrir að fólk hafi sömu tækifæri í leik og starfi til að lifa eðlilegu lífi.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um eftirfarandi og ég treysti því að hæstv. ráðherra hafi rætt það við embættismenn í ráðuneyti sínu: Á fjárlögum ársins 2008 var áætlað að veita 100 millj. kr. til þess að lækka flutningskostnað hjá heimilunum á landsbyggðinni, hvers vegna var sú heimild ekki nýtt? En Samfylkingin fór í þá daga með ráðuneyti viðskiptamála þar sem átti að greiða þessa fjármuni út.

Alþingi Íslendinga setur lög og í þetta skiptið voru það fjárlög og það er framkvæmdarvaldið sem á að fylgja þeim eftir. Það er með ólíkindum og í raun framkvæmdarvaldinu til háborinnar skammar að þessar 100 millj. skyldu ekki hafa verið greiddar út til að lækka flutningskostnað fyrir íbúa á landsbyggðinni, nógu hár hefur kostnaðurinn verið fram að þessu. Ég held þess vegna að við þingmenn ættum að fara fram á mjög skýr svör frá viðskiptaráðherra, sem vel að merkja ber ekki ábyrgð á embættisfærslunni árið 2008 heldur Samfylkingin. Hvers vegna fór viðskiptaráðherra árið 2008 og ráðuneyti hans ekki að vilja Alþingis sem setti í fjárlög 100 millj. kr. til að lækka flutningskostnað á landsbyggðinni?

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra í ljósi hástemmdra yfirlýsinga félaga hans í ríkisstjórninni: Hver er fyrirætlan núverandi ríkisstjórnar um að lækka flutningskostnað á landsbyggðinni? Miklu var lofað í aðdraganda kosninga. Sérstaklega vil ég minna á að hæstv. núverandi samgönguráðherra, Kristján Möller, og hæstv. núverandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, Jón Bjarnason, lofuðu með mjög hástemmdum hætti að eitt af fyrstu verkum þeirrar ríkisstjórnar sem tæki við ætti að vera að lækka flutningskostnað á landsbyggðinni.

En það veit ekki á gott, hæstv. forseti, ef marka má fortíðina þar sem Samfylkingin var að störfum að hún nýtti sér ekki 100 millj. kr. sem Alþingi Íslendinga veitti til þess að lækka og jafna flutningskostnað um allt land. Og þess vegna spyr ég hvað hæstv. núverandi (Forseti hringir.) viðskiptaráðherra ætli sér að gera í þeim efnum.