137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

flutningskostnaður á landsbyggðinni.

22. mál
[14:42]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir að koma með þetta mál upp í pontu. Við ræddum í síðustu viku um olíugjald og frekari álögur á flutninga og alla þá sem þurfa nauðsynlega, bæði starfa sinna vegna og búsetu, að nota bíla og geta ekki notast við almenningssamgöngur. Það er í ljósi þess sem umræða um jöfnun flutningskostnaðar er kannski enn mikilvægari.

Það er líka áhugavert að sjá hæstv. samgönguráðherra ganga í salinn, því að á meðan ég var úti í samfélaginu og ekki hér inni kveikti ég einstaka sinnum á sjónvarpinu og alltaf var hv. þingmaður þáverandi í pontu að ræða um flutningskostnað á landsbyggðinni og jöfnun hans. Mér finnst því að ríkisstjórnin ætti að einhenda sér í það að koma með einhverjar aðgerðir til hagsbóta fyrir landsbyggðina alla, bæði jöfnun flutningskostnaðar og annað, en ekki leggja auknar álögur á það fólk sem þar býr og þarf (Forseti hringir.) að starfa.