137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

flutningskostnaður á landsbyggðinni.

22. mál
[14:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Hér er um mjög stórt mál að ræða. Flutningskostnaður fyrirtækja sem starfa og eru að reyna að halda uppi atvinnulífi á landsbyggðinni er mjög mikill og aðstöðumunurinn er gríðarlegur ef við miðum við þau fyrirtæki á suðvesturhorninu sem eru næst útflutningshöfnum landsins.

Því er ósköp eðlilegt að við veltum fyrir okkur hvers vegna í ósköpunum þeir fjármunir sem voru veittir í sérstaka aðgerð til að lækka flutningskostnað og gera tilraun með því, hafi ekki verið nýttir í það heldur settir í þennan þó mikilvæga sjóð til að jafna olíuverðið.

Mig langar því að spyrja viðskiptaráðherra hvort hann hyggist beita sér fyrir því að farið verði í einhvers konar jöfnuð á flutningskostnaði fyrir fyrirtæki sem starfa fjær útflutningshöfnum okkar til þess að atvinnulífið búi við sams konar skilyrði. Það eru mjög öflug og góð nýsköpunar- og sprotafyrirtæki, framleiðslufyrirtæki út um allt land sem þurfa að greiða hátt verð fyrir flutning á sínum vörum til að standa jafnfætis öðrum fyrirtækjum í landinu.