137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

staða heimilanna.

[15:55]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Bhr):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra upplýsti okkur um að ekki séu eins mörg heimili í vanda stödd og almennt var talið. Það sem mestu máli skiptir er að of mörg heimili eru í vanda en ekki hve mörg.

Leiðrétta þarf alvarlega stöðu heimilanna með því að færa vísitölu verðtryggingarinnar handvirkt fram fyrir hrun hagkerfisins og hækkanir höfuðstóls og afborganir húsnæðislána til samræmis við það. Skuldabyrði heimila vegna gengistryggðra íbúðalána verður að lagfæra í samræmi við lagfæringu verðtryggðra íbúðalána. Afnema þarf verðtrygginguna eftir að skuldir heimilanna hafa verið leiðréttar. Fólkið í landinu vill greiða þær skuldir sem það sannarlega stofnaði til en þar við situr. Fólk almennt vill reka heimili sín af ábyrgð og skynsemi. Heimilin eiga ekki að bera ábyrgð á glórulausri efnahagsstjórn síðustu ára.

Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra minntist á þá staðreynd að fjármunir séu takmarkaðir. Ríkisstjórnin hæstv. hefur ráðist í það óvinnandi verk að greiða skuldir óreiðumanna í útlöndum. Við þurfum að gera okkur grein fyrir því að það er ekki hægt og hætta að reyna það og gera það sem svo mörg heimili hafa neyðst til að gera. Að hætta að borga. Við þurfum að semja um skuldirnar og reyna að fá þær niðurfelldar. Þá fyrst er hægt að bjarga heimilunum og fyrirtækjunum.