137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

staða heimilanna.

[15:57]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Hæstv. forseti. Ég, eins og aðrir stjórnarandstæðingar hér, varð fyrir miklum vonbrigðum með svör fulltrúa stjórnarflokkanna. Raunar virtist hæstv. fjármálaráðherra vera hálfönugur yfir því að þurfa eina ferðina enn að ræða þetta mál. Það væri náttúrlega einfaldast fyrir hann að losna við þessa umræðu með því að leggja til einhverjar lausnir og þá hugsanlega líka að hætta að slá fyrir fram út af borðinu allar hugmyndir að lausnum sem koma frá öðrum.

Hæstv. forsætisráðherra talaði enn um kostnaðinn sem lendi á ríkinu við það að ráðast í leiðréttingu skulda en gleymir því líka eina ferðina enn að það er ekki búið að færa lánin úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju. Þegar það verður gert verður það gert með verulegri afskrift og eðlilegt að sú afskrift sé umtalsverð í ljósi þess að væru þessi lánasöfn bankanna, ég tala nú ekki um ef við tökum sem dæmi húsnæðislánin, seld á uppboði á alþjóðlegum markaði fengist fyrir þau bara brot af því sem nú stendur til að innheimta. Möguleikinn er fyrir hendi að ríkið kaupi þessi lán á sanngjörnu verði en þó ekki hærra verði en svo að afskriftirnar geti að einhverju leyti gengið áfram til þeirra sem skulda og á endanum skilist þá meira til baka út úr hagkerfinu sem þá fer ekki algjörlega á hliðina heldur geta heimilin haldið áfram að borga og fyrirtæki vonandi sem flest haldist áfram í rekstri.

Ég tek undir með hv. þm. Lilju Mósesdóttur um að nú væri ráð að forsætisráðherra skipaði nefnd til að kanna möguleikann á því að vinda ofan af verðtryggingunni. Tækifærið til þess er að skapast núna og við eigum að nýta það tækifæri. Raunar held ég, svona í framhaldi af þessum umræðum í dag, að það gæti verið ráð að stjórnarandstaðan eða einhverjir úr stjórnarandstöðunni settust niður með fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna, til að mynda hér í húsinu, og tækju í það einn dag, svona einhvers konar vinnudag, til að skiptast á hugmyndum um lausnir því að ríkisstjórnin kemur ekki með lausnir en kallar þó eftir lausnum frá öðrum og þær munum við svo sannarlega halda áfram að koma með hér á Alþingi. En það hvarflar að mér að það gæti verið heppilegra og þægilegra fyrir ríkisstjórnina ef þessar lausnir væru fyrst ræddar í lokuðu herbergi svoleiðis að henni þætti ekki eins og verið væri að stilla henni upp við vegg, hún væri að taka við lausnum frá einhverjum öðrum, því að það virðist henni mislíka stórkostlega.

Ef við settumst nú niður saman og reyndum í sameiningu að verja í það þó ekki væri nema einum degi til að finna lausnir á vandanum sem allir flokkar á Alþingi geta skrifað upp á að tilraun verði gerð til að fara í, þá væri ríkisstjórnin að sýna það samráð sem hún hefur talað svo mikið fyrir og í rauninni á einhvern hátt kannski að leysa þann vanda sem hún er komin í, fengi hjálp upp úr skotgröfinni sem hún virðist vera föst í og fengi um leið hugmyndir því að hugmyndir virðist skorta. Við þessar aðstæður þarf óvenjulegar hugmyndir, menn þurfa að þora að fara óvenjulegar leiðir. Við erum í stöðu sem íslenskt efnahagslíf hefur aldrei nokkurn tíma verið í áður og mun vonandi aldrei lenda í aftur og við þeirri stöðu og því ástandi duga ekki hefðbundin gömul ráð eins og að kalla hér saman þingmenn seint um kvöld til að hækka skatta á áfengi, tóbak og bensín. Menn þurfa að þora að hugsa aðeins út fyrir kassann og væri ekki bara ráð að við reyndum að gera það saman svoleiðis að ríkisstjórnin hefði þá líka stuðning við þær hugmyndir sem út úr slíkri vinnu kæmu?