137. löggjafarþing — 13. fundur,  3. júní 2009.

staða heimilanna.

[16:01]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Stjórnarandstaðan hafði ekki mikið nýtt fram að færa í þessari umræðu. Það var klifað á því sama að ekkert hefði verið gert fyrir heimilin í landinu þrátt fyrir það að hver einasti þingmaður hér inni ætti að þekkja þær 22 aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur farið í á umliðnum vikum og mánuðum. (Gripið fram í.) Það er klifað á því líka að öllum tillögum sem koma fram frá stjórnarandstöðunni og öðrum sé ýtt út af borðinu eins og hér var sagt. Þetta er auðvitað alrangt, þessar tillögur hafa verið til skoðunar m.a. hjá Seðlabankanum og þær hafa fengið sinn dóm, m.a. tillaga talsmanns neytenda, og ég lýsti því hvað Seðlabankinn hefur að segja um þær tillögur sem m.a. framsóknarmenn hafa sett fram. (Gripið fram í.) Þær kosta um 900 milljarða kr., þar af vegna heimilanna 285 milljarða kr., og ef farið verður í þessar aðgerðir munum við fara í aðra kollsteypu. Þá hefur Framsóknarflokkurinn ekki tekið með hvað þetta þýddi fyrir Íbúðalánasjóð sem færi á hausinn ef farið væri að tillögum framsóknarmanna og það hefur ekki verið rætt um hvaða áhrif þetta hefði á lífeyrissjóðina og greiðslurnar ef farið væri út í svona flata … (Gripið fram í.)

Ég veit að hv. þingmaður er órólegur yfir þessu en þetta eru bara staðreyndir málsins. Ef farið væri að tillögum framsóknarmanna þýddi það að niðurfelling á húsnæðisskuldum 17.500 heimila sem eru með meira en 20 millj. kr. í jákvæða eiginfjárstöðu væri 41 milljarður kr. sem er meira en við förum núna með í allar barnabætur, húsnæðisbætur, fæðingarorlof o.fl. Þetta er tvöfalt meira en sá halli sem við þurfum að glíma við á þessu ári. (Gripið fram í.) Það er því ljóst að menn þurfa að átta sig á áhrifunum af því að fara í svona aðgerðir.

Það að ekki sé farið í neinar aðgerðir, ég boðaði aðgerðir í ræðu minni áðan en það virðist ekki hafa komist til skila til nokkurs einasta þingmanns. (Gripið fram í.) Ég nefndi að það væri ákveðinn hópur sem þyrfti að fara í aðgerðir út af, 12% af þeim hópi heimilanna sem þarf að verja yfir 50% af ráðstöfunarfé sínu í greiðslubyrði af fasteignalánum. Það þarf að skoða hvernig á að fara í það að grípa til frekari aðgerða vegna þessa hóps og ekki síst þessa 6% hóps sem er líka með neikvæða eiginfjárstöðu. Það er verið skoða, m.a. er verið að ganga frá reglugerð eins og hér kemur fram að afskriftir verði ekki skattlagðar. Verið er að skapa forsendur fyrir því að bankarnir geti farið í svokallaða frjálsa greiðsluaðlögun, það er verið að skoða myntkörfulánin og ekki síst bílalánin og hvernig í það verður farið. Allt þetta er verið að skoða í ljósi þeirra nýju upplýsinga sem fram koma nú frá Seðlabankanum og þetta erum við að skoða einmitt í samráði við aðila vinnumarkaðarins hvernig fara skal í. En óraunhæfar aðgerðir eins og hér hafa verið lagðar fram, sem setja þjóðina þráðbeint á höfuðið, (Forseti hringir.) eru ekki tillögur sem ég vil fara í. (Gripið fram í.)