137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir fyrirspurnina. Ég var reyndar búinn undir það að hún fjallaði um útiræktun á erfðabreyttu byggi. En ég deili sannarlega vonbrigðum Gunnars Braga varðandi stýrivaxtalækkunina. Hún er að sjálfsögðu allt of lítil til að koma hjólum atvinnulífsins í fullan snúning og ég tel að stjórnvöld hafi lagt fram allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar voru til að peningastefnunefndin tæki mun stærra skref og ég vona að það gerist fyrr en síðar.

Fyrirspurnin lýtur að því að fyrirtækið ORF Líftækni hefur sótt um leyfi til Umhverfisstofnunar til að hefja útiræktun á erfðabreyttu byggi. Ég get sagt það hér og nú að ég er mjög jákvæður gagnvart þessu verkefni. Ég tel að þetta sé mikilvægt nýsköpunarverkefni. Samkvæmt lögum ber að leita eftir umsögnum tveggja aðila áður en slíkt leyfi er veitt, annars vegar ráðgjafarnefndarinnar um erfðabreyttar lífverur og hins vegar Náttúrufræðistofnunar. Ráðgjafarnefndin var reyndar ekki einhuga í afstöðu sinni en þó er það niðurstaða hennar að mæla með því að þetta leyfi sé veitt til fimm ára. Það er ekki síður mikilvægt að Náttúrufræðistofnun hefur skilað niðurstöðu þar sem ekki er lagst gegn þessum tilraunum í ljósi fyrri niðurstaðna við ræktun erfðabreytts byggs í Gunnarsholti og þeirra varúðarráðstafana sem koma fram í umsögn fyrirtækisins. Ég tel því einsýnt að menn eigi að greiða þessu götu. Umsagnarfrestur hefur verið framlengdur til 12. júní, það eru átta dagar í það og mér skilst á upplýsingum sem ég fékk í morgun frá Umhverfisstofnun að það eigi ekki að líða nema 3–4 dagar eftir það þar til ákvörðun er tekin um leyfisveitingu sem ég vona og trúi og styð að verði jákvæð.