137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Frú forseti. Nú hefur forusta Sjálfstæðisflokksins upplýst um vandlega útfærða endurgreiðsluáætlun á ofurstyrkjum frá FL Group og Landsbankanum sem felur í sér endurgreiðslu verðbóta- og vaxtalaust á um 60 millj. kr. styrk frá þessum fyrirtækjum sem nú eru orðin að skilanefndum. Það er full ástæða til að hrósa hv. formanni Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssyni, fyrir skilvísina enda mun hann vera fullur vandlætingar á þeim gífurlegu upphæðum sem hann vissi ekkert um. Ekki frekar en varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, né heldur fyrrverandi ráðherra flokksins, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, sem að vísu bað vini sína í þessum fyrirtækjum um að safna þessum peningum án þess þó að hann hafi nokkurn tíma rennt í grun að upphæðirnar sem þeir söfnuðu væru svona hneykslanlegar, enda reyndi hv. þingmaður að fá endurskoðanda sveitarfélags sem hann vann einu sinni fyrir til að skoða málið þó að málið væri því alls ótengt, svo mikil var vandlætingin. Því er spurt: Ætlar formaður Sjálfstæðisflokksins ekki að beita sér fyrir því að félög Sjálfstæðisflokksins og kjördæmisráð upplýsi nú um þá styrki sem þau öfluðu án liðsinnis aðalskrifstofu flokksins líkt og Samfylkingin hefur nú gert? Bæta má þeirri spurningu við til annarra flokka hvort þeir ætli ekki með sambærilegum hætti og Samfylkingin hefur nú gert með sín svæðisfélög og kjördæmisráð að upplýsa um styrki frá fyrirtækjum þannig að allir stjórnmálaflokkar á Íslandi leggi spil sín á borðið í þessum efnum.