137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

störf þingsins.

[10:49]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Það voru vissulega mikil vonbrigði í morgun að stýrivextir skyldu ekki lækka meira en raun bar vitni. Þetta háa vaxtastig endurspeglar þann aðgerðaleysiskostnað sem við erum að upplifa núna á Íslandi, aðgerðaleysiskostnað vegna þess að svo virðist sem stjórnarflokkarnir hafi bara engin ráð. (Gripið fram í: … efnahagsráðgjafi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.) (Gripið fram í.)

Nú er búið að boða að efnahagspakki verði kynntur hér í næstu viku. Sá efnahagspakki sem er viðbrögð við þeirri óáran sem hér hefur dunið yfir er sagður vera ráð ríkisstjórnarinnar. Það er fals. Það er algjört fals. Það sem á að kynna í næstu viku eru viðbrögð við því að fjárlögum hefur ekki verið fylgt. Það er ekki búið að boða neinn efnahagspakka. Það er boðaður efnahagspakki hérna einhvern tímann í júní eða júlí, bara einhvern tímann þegar mönnum hentar, en á meðan blæðir fyrirtækjum og heimilum út vegna ráðaleysis. Við sjáum þetta í háum vöxtum. Þetta er aðgerðaleysiskostnaðurinn sem við Íslendingar þurfum að horfa upp á vegna vanhæfni ríkisstjórnarinnar. (Gripið fram í: Vanhæfis.) Vanhæf ríkisstjórn.