137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

skýrslur nefnda um háskólamál.

[11:04]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Það er alveg rétt sem kom fram í gær í máli hæstv. menntamálaráðherra í umræðu að á síðustu árum hefur vissulega orðið jákvæð fjölgun háskóla og nú loksins falla landbúnaðarháskólarnir undir menntamálaráðuneytið þannig að hægt er að móta í fyrsta sinn heildstæða stefnu í málefnum háskóla og rannsóknastofnana. Og núna gefst þetta kærkomna tækifæri þegar þær tvær skýrslur liggja fyrir sem þessi umræða snýst um.

Við lok síðasta árs þegar hinir efnahagslegu erfiðleikar höfðu skollið á þjóðinni af fullum krafti eins og þekkt er var mikilvægt að huga strax að því hvernig við Íslendingar gætum brugðist við innan háskóla- og vísindageirans á svo erfiðum tímum, þ.e. hvernig hægt væri að verja háskólana, rannsóknastofnanirnar okkar og fara með þau verkefni í gegnum umbreytingaskeið sem var þá óhjákvæmilega fram undan. Við ætluðum okkur að læra af öðrum þjóðum sem líkt og við höfðu staðið í og farið í gegnum efnahagslega erfiðleika og þrengingar og jafnvel á slíkum tímum eflt menntakerfið, eflt rannsóknirnar eins og Finnar gerðu og það var ekkert feimnismál fyrir okkur að leita til Finna sem við og gerðum. Á grundvelli þess hvernig best væri að haga stjórnun háskóla- og vísindamála í gegnum kreppu skipaði ég sem menntamálaráðherra annars vegar nefnd alþjóðlegra sérfræðinga sem falið var það verkefni að skoða umhverfi menntunar, rannsóknar og nýsköpunar og hins vegar innlenda verkefnastjórn sem m.a. átti að skoða þróun háskólastarfs á umliðnum árum og koma með nýjar hugmyndir. Til að leiða starf erlendu sérfræðinganna var fenginn Finni, Taxell nokkur, rektor Turku-háskóla, en hann var líka ráðherra vísindamála í Finnlandi þegar þeir tókust á við sína kreppu fyrir tæpum tveimur áratugum. Það var auðvitað mikill fengur fyrir okkur Íslendinga að fá hann í þetta verkefni, því að það hvernig Finnar tókust á við kreppuna með áherslu á nýsköpun og rannsóknir hefur auðvitað orðið mörgum öðrum þjóðum gott fordæmi.

Erlendu sérfræðingarnir hafa nú kynnt tillögur sínar. Þeir leggja áherslu á að áfram verði hlúð að menntun með öflugum hætti og ítreka líka mikilvægi grunnskólans. Þetta er þýðingarmikið. Þeir velta einnig upp þeim möguleika að háskólakerfið verði endurskipulagt og þá með það að markmiði að sameina háskóla og efla rannsóknir og nýsköpun. Ég efast ekki um að við erum öll sammála um það.

Íslenskt háskólaumhverfi hefur verið í mikilli þróun síðastliðinn áratug. Nýir háskólar hafa fest sig í sessi og veitt þeim sem fyrir eru mikilvæga samkeppni um nemendur og akademískan árangur. Ég fullyrði að fátt hafi hleypt meira lífi í háskólaumhverfið en einmitt þessi samkeppni. Við höfum tekið mikilvæg skref varðandi sameiningar á síðustu árum, með sameiningu Tækniháskólans og Háskólans í Reykjavík, við tókum ákvörðun um að sameina Kennaraháskólann og Háskóla Íslands til þess að reka öflugri einingar bæði rekstrarlega en ekki síður akademískt. En það er mikilvægt að skoða til hlítar, frú forseti, hvort aukið samstarf eða frekari sameining háskóla sé skynsamleg sem næsta skref í eflingu háskóla. Verði slík skref tekin verður hins vegar að tryggja að þau séu ekki á kostnað fjölbreytileikans og valfrelsisins í háskólaumhverfinu. Samkeppni háskóla hefur hleypt nýju lífi í kennslu og rannsóknir en virk samkeppni hefur leitt til meiri fjölbreytni, markmið kennslu hafa orðið skýrari og þjónusta við nemendur orðið skilvirkari eins og segir í annarri skýrslunni.

Í skýrslunum er einnig komið inn á vísindastarf okkar, að það sé sterkt í alþjóðlegum samanburði og með tilkomu Vísinda- og tækniráðs hafi opinberar rannsóknastofnanir verið endurskipulagðar og vægi háskólanna við rannsóknastarfsemina aukið. Þetta var rétt skref og gott en við verðum að halda áfram að þróa þennan vettvang Vísinda- og tækniráðs; samtal stjórnmálamanna, fræði- og vísindamanna og atvinnulífs við borð ráðsins. Það hefur verið gott en það er að mínu mati brýnt að það verði áfram opinskátt og fordómalaust.

Í ljósi mikilvægis menntamála til skemmri og lengri tíma er brýnt að hver ákvörðun sem tekin er í þessum málaflokki eyði ekki þeim ávinningi sem náðst hefur á undanförnum árum heldur miklu frekar styrki grunnstoðir okkar samfélags til lengri tíma litið. Því vil ég spyrja hæstv. menntamálaráðherra í ljósi skýrslnanna:

1. Hvaða skoðanir hefur hæstv. ráðherra sjálf á niðurstöðu erlendu skýrslunnar?

2. Hvaða sjálfstæða skoðun hefur ráðherra á sameiningum háskóla- og rannsóknastofnana?

3. Styður ráðherra það að gera háskólana að sjálfseignarstofnunum ef sýnt er að slíkt fyrirkomulag muni styrkja háskólana?

4. Í ljósi orða skýrslnanna liggur fyrir að samkeppni á háskólasviði í rekstri, rannsóknum og kennslu er hluti af þeirri sókn sem þar hefur orðið á undanförnum árum, hvað ætlar ráðherra að gera til að varðveita þá fjölbreytni og passa upp á að samkeppnin verði ekki minni á sviði háskóla- og rannsóknamála?