137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

skýrslur nefnda um háskólamál.

[11:19]
Horfa

Ólöf Nordal (S):

Virðulegi forseti. Rannsóknastarf og nýsköpun er einmitt mjög mikilvægt á krepputímum. Þeir sprotar sem settir hafa verið í jörð á undanförnum árum á sviði nýsköpunar og rannsóknasjóða mun vonandi skapa okkur jarðveg til að koma okkur fljótar út úr kreppunni en ella hefði orðið. Mikilvægt er nú þegar erfiðar ákvarðanir liggja fyrir í ríkisfjármálum að leggja grunn að samkeppnishæfu atvinnulífi framtíðarinnar. Það gerum við með því að efla rannsóknasjóðina, efla nýsköpun og leiða saman atvinnulíf, menntakerfi, ríkisstofnanir, ríkisstjórn og Alþingi til þess að skapa grunn fyrir gróskumikið atvinnulíf framtíðarinnar.

Þegar Vísinda- og tækniráð var sett á laggirnar árið 2003 var mjög mikilvægt skref stigið í þá átt að leiða saman ólíka hópa til þess að byggja upp öflugt rannsóknarlíf á Íslandi. Við vitum að þau fyrirtæki sem við stólum hvað mest á núna eiga rót sína að rekja til öflugrar rannsóknavinnu. Þau eru mörg hver runnin undan rifjum háskóla, önnur hafa komið annars staðar frá en eiga það sameiginlegt að nýsköpun og rannsóknir, öflugt rannsóknastarf hafa lagt grunn að þeim miklu gjaldeyristekjum sem þessi fyrirtæki skapa. Þær ákvarðanir sem við munum taka núna í menntamálum eru þess eðlis að þær munu hafa mikil áhrif á framtíðina. Þar verðum við fyrst og fremst að líta til þess hvernig þjóðfélag við ætlum að byggja upp í framtíðinni og það verður á grundvelli öflugrar nýsköpunar og rannsókna sem við munum gera þar. Þess vegna vil ég við þessa umræðu hvetja hæstv. menntamálaráðherra til að horfa sérstaklega til rannsóknasjóða, samkeppnissjóða, hvort hægt sé að efla samvinnu á milli þeirra enn betur en þegar hefur verið gert til þess að þeir geti orðið sá mikilvægi sproti sem þau þurfa að (Forseti hringir.) verða núna þegar við stöndum frammi fyrir þeim erfiðu ákvörðunum sem fram undan eru.