137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

skýrslur nefnda um háskólamál.

[11:22]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Virðulegi forseti. Hér eru til umræðu skýrslur um háskólana sem nýverið komu fram, ein innlend og önnur erlend. Ég held að það sé mjög mikilvægt á tímum eins og núna að málefni háskólanna séu til umræðu. Fyrir höndum er niðurskurður og hagræðing á öllum sviðum og þá er mjög mikilvægt að taka til umræðu málefni háskólanna. Í því samhengi held ég að það sé enn mikilvægara að leggja mikla áherslu á nýsköpun og hafa þar að leiðarljósi að rannsóknir, vísindi og menntun eru lykillinn í því efni. Þegar við komum að nýsköpun skulum við einkum horfa til styrkjasjóða og Vísinda- og tækniráðs. Mikilvægt er að efla samkeppnissjóði, tengsl þeirra, samstarf og tengsl við atvinnulífið á sem flestan hátt. Innihald skýrslnanna kemur að miklu leyti inn á það.

Þá erum við komin að þeim hluta sem fékk hvað mesta umfjöllun í fjölmiðlum sem eru sameiningar háskólanna. Mín skoðun er sú að það verðum við að skoða. Hins vegar legg ég ríka áherslu á að það sé gert í fullu samráði við þær stofnanir sem þar eiga í hlut, sérstaklega á tímum eins og þessum þar sem samstaða er áríðandi, m.a. innan háskólakerfisins. Þá er mjög mikilvægt að samstaða ríki varðandi þessi mál og þar sem ekki er mögulegt að sameina verði litið til aukins samstarfs.

Í þessu samhengi vil ég líka tala um byggðasjónarmið og jafnrétti út frá byggð og nefni til að mynda háskólasetrin og landsbyggðarháskólana, Háskólann á Akureyri og landbúnaðarháskólana. Það er mjög mikilvægt að þessar stofnanir fái að þróast sjálfstætt á komandi árum, fari í náið samstarf við aðrar stofnanir en fái að standa sjálfstætt á eigin fótum.