137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

skýrslur nefnda um háskólamál.

[11:31]
Horfa

menntamálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka öllum hv. þingmönnum umræðuna sem sýnir áhuga á þessum málaflokki. Ég vil í fyrsta lagi geta þess að ég bind vonir við að sá rýnihópur sem nú hefur verið skipaður muni skila af sér fljótt og vel og tryggja ákveðna umræðu úti í háskólasamfélaginu. Það er trú mín að stefnumótunin í þessum efnum eigi ekki eingöngu að koma að ofan, hún á að vera samspil stjórnmálamanna, sérfræðinga og grasrótarinnar, háskólasamfélagsins sjálfs, sem þarf að taka afstöðu til hugmyndanna sem fyrir liggja. Þar set ég inn hugmyndir um sjálfseignarstofnanir sem ég vil skoða með opnum huga. Ég hef ekki tekið endanlega afstöðu til þeirra en þær þurfum við að skoða með opnum huga.

Hvað varðar samkeppnina vil ég líka geta þess að samkeppni okkar er fyrst og fremst við útlönd. Það er mikilvægt að halda nemendum og vísindamönnum hér heima, að þeir vinni á Íslandi í okkar íslenska háskólasamfélagi en fari ekki eitthvert annað. Það skiptir gríðarlegu máli að standa vörð um háskóla- og rannsóknarsamfélagið á Íslandi. Ég lít svo á að þar sé okkar aðalsamkeppni núna. Svo fór ég yfir önnur sjónarmið í þeim efnum áðan.

Ég held að í þessari vinnu munum við þurfa að „fókusera“ á þrennt: Við þurfum að hugsa um hin akademísku gæði sem við verðum að standa vörð um og efla enn frekar. Við þurfum að hugsa um byggðasjónarmiðin eins og hv. þm. Ásmundur Daðason nefndi. Þau skipta miklu máli því að þetta er líklega sú besta byggðastefna sem við höfum byggt upp, þ.e. uppbygging skóla og vísindastarfs á landsbyggðinni. Síðan þurfum við að huga að samlegðaráhrifum eins og hv. þm. Eygló Harðardóttur fór yfir í ræðu sinni, hvort sem það er sameiginlegur doktorsskóli, sameiginlegt utanumhald eða annað slíkt.

Þessi vinna er í farvegi. Rýnihópur sé sem nú hefur tekið til starfa mun skila af sér í lok júní, í byrjun júlí, og ég bind vonir við að við getum náð niðurstöðu í þessu máli nú síðsumars eða á haustdögum og þakka fyrir umræðuna.