137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

náttúruverndaráætlun 2009--2013.

52. mál
[11:47]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið en hefði hins vegar gjarnan viljað fá það skýrara. Ég vil vekja athygli á því að hér er ekki aðeins um það að ræða að náttúrustofurnar eigi að hafa hlutverk eins og hver annar umsagnaraðili í þjóðfélaginu, sem ég geri ekki lítið úr, en hins vegar hafa náttúrustofurnar sjálfstætt hlutverk samkvæmt lögum sem fellur mjög vel að því verkefni sem við erum að fjalla um sem er verkefni um náttúruverndaráætlun.

Ég tel að það eigi ekkert síður að ætla náttúrustofunum í landinu hlutverk en Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun og vek athygli á að þær hugmyndir sem uppi eru um friðlýsingar eru á þeim svæðum þar sem náttúrustofurnar eru starfandi. Ég tel þess vegna að það eigi að tala mjög skýrt um það í þessari náttúruverndaráætlun að náttúrustofurnar hafi beint hlutverk sem sé sambærilegt við hlutverk Náttúrufræðistofnunar og Umhverfisstofnunar. Ég hvet hv. þingnefnd til að fara sérstaklega yfir þessi mál með það í huga að breyta náttúruverndaráætlun á þann veg að náttúrustofurnar hafi formlegt hlutverk, (Forseti hringir.) miklu skýrara en kveðið er á um í þessari áætlun og var kveðið á um í gömlu áætluninni.