137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

náttúruverndaráætlun 2009--2013.

52. mál
[11:58]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því að tillaga til þingsályktunar skuli vera komin til umræðu á hinu háa Alþingi. Gripurinn er mér nokkuð skyldur. Vinna að þessari þingsályktunartillögu var sett af stað í umhverfisráðuneytinu sumarið 2007 og hún hefur áður verið til umfjöllunar á hinu háa Alþingi eins og fram hefur komið og eðlilegt að leggja hana fram með þeim hætti sem gert hefur verið að loknum alþingiskosningum.

Hér gætir ýmissa nýmæla eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra. Það er breiskjuhraunavistin, í fyrsta skipti í 30 ár er verið að friðlýsa plöntutegundir, í fyrsta skipti í sögunni er verið að friðlýsa dýr, skordýr, lindýr, brekkubobbann góða sem okkur er ansi annt um.

Að síðustu langar mig að nota þetta tækifæri til að spyrja hæstv. ráðherra vegna þess að hér hefur verið rætt um slælega framgöngu stofnana umhverfisráðuneytisins í friðlýsingunum. En eins og ég þekki til málsins kostar þetta peninga. Það gladdi mig því mjög að heyra það í máli hæstv. ráðherra að (Forseti hringir.) hún hygðist beita sér fyrir einhvers konar umhverfisgjaldi, eins og reyndar kemur fram í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, og ég vil inna hana nánar (Forseti hringir.) eftir því hvernig hún ætlar að gera það.