137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

náttúruverndaráætlun 2009--2013.

52. mál
[12:43]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek að mörgu leyti undir orð Guðfríðar Lilju áðan þar sem hún fjallaði um að leiðir okkar út úr núverandi vandamálum séu kannski grænu leiðirnar, grænar lausnir, og við ættum þess vegna að horfa mjög ákveðið til umhverfismála. Ég fagna því verkefni sem fyrir okkur liggur núna og nefndin mun taka fyrir, því að eins og ég hef nálgast það verkefni tel ég að umhverfismál séu kannski stærstu atvinnumálin í íslensku samhengi í dag vegna þess að vaxtarbroddar íslensks atvinnulífs eru fyrirtæki sem byggja tekjur sínar á erlendum gjaldeyri. Þangað horfum við í dag. Það eru fyrirtæki sem eru að flytja vörur eða þjónustu til útlanda eða þá ferðaþjónustan. Þessi fyrirtæki byggja meira og minna eða að öllu leyti sína tilvist eða sína vöru eða styrk sinnar vöru og sinnar þjónustu á ímynd lands og þjóðar. Og hver er ímynd lands og þjóðar? Hún byggir svo mikið á sterkri og góðri náttúru.

Þess vegna segi ég að umhverfismál séu stærstu atvinnumálin. Það er alveg sama hvert við lítum, hvort heldur það er fiskur, skyr, lopapeysur, húðkrem eða hvað það er annað. Um leið held ég að það sé líka mikilvægt að við horfum til þess að við í umhverfisnefnd og kannski aðrir umhverfissinnar, náum að taka þessa umræðu upp úr þeim hjólförum sem hún er í þar sem hefur verið álverssinni á öðrum kantinum og umhverfissinni á hinum kantinum. Að við reynum að færa þetta fólk saman kannski í því augnamiði að umhverfismálin eru stærsta atvinnumálið. Og þá held ég að við umhverfissinnar ættum að horfa mjög ákveðið í eigin barm og taka umræðuna áfram og svara kalli „álverssinna“ um ákveðnar aðgerðir í atvinnumálum til að styrkja þau fyrirtæki sem byggja tilvist sína á ímynd lands og þjóðar sem byggir á náttúru og náttúruvernd.