137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

náttúruverndaráætlun 2009--2013.

52. mál
[12:54]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég var að vitna í og nefndi offors var í sögu Þjórsárvera þar sem ég sagði að sú saga lýsti svo vel sögu náttúruverndar á Íslandi og hvernig hetjuleg framganga heimamanna í þeirri sögu, áratugasögu, væri saga kjarkaðra einstaklinga sem vildu passa upp á landið sitt gegn öðrum hagsmunum og stóðu þar gegn mjög sterkum hagsmunum sem vildu annað. Það var offorsið sem ég var að tala um.

Varðandi Skeiða- og Gnúpverjahrepp, þá held ég að hv. þm. Eygló Harðardóttir sé að vitna til Þjórsár, virkjana í neðri hluta Þjórsár, þegar hv. þingmaður talar um ákvörðun varðandi það svæði. Þar verð ég líka að segja að ég þekki þokkalega vel það mál, virkjanir í neðri hluta Þjórsár, og ég leyfi mér að fullyrða að ýmsir heimamenn og jafnvel skoðanakönnun um Urriðafossvirkjun sýndi það að meiri hluti heimamanna vildi hana ekki. Þar væri einmitt líka tilefni til að skoða hvort offors hafi átt sér stað í því hvernig þau mál hafa verið unnin, þ.e. að þar eigi að setja af stað virkjanir og vinnu í ósátt við nánasta umhverfi. Ég ætla ekki að draga úr því að saga náttúruverndar á Íslandi, hvort sem er um Þjórsárver eða Þjórsá, er lituð mjög sterkri og djúpri og sársaukafullri baráttu milli ólíkra sjónarmiða.